135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[15:54]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég vil nú án þess að fara út í langt mál hér um þetta frumvarp, lýsa ánægju minni með þær breytingar sem þar eru boðaðar. Ég held að frumvarpið sé að meginstefnu til þess fallið að auðvelda framkvæmd þessara mála. Gera reglur skýrari og tryggja að málsmeðferð í þessum málum sé í betri takti við þær þarfir sem fyrir hendi eru.

Ég vil líka segja fyrir mitt leyti að ég fagna því hvað tónninn í umræðunni hér í dag hefur verið jákvæður gagnvart þessu frumvarpi og tel að það gefi góðar vonir um að við megum eiga góðar og málefnalegar umræður um málið í allsherjarnefnd þegar það kemur þangað.

Almennt um þessi mál er það að segja að við Íslendingar höfum eins og nágrannaþjóðirnar stigið skref í þá átt að taka þátt í opnum markaði, vinnumarkaði Evrópu með aðild okkar að Evrópska efnahagssvæðinu og við höfum undirgengist ákveðnar skuldbindingar á þeim forsendum sem gera það að verkum að Ísland er afar opið land gagnvart þeim ríkjum sem þar eiga aðild.

Að sama skapi höfum við stigið skref í þá átt að tryggja ákveðna stýringu á komu annarra, þeirra sem koma frá löndum utan sameiginlega innri markaðarins, við höfum haft stífa stýringu á því. Frá þeim meginsjónarmiðum er ekki vikið í þessu frumvarpi. Það má segja að það hafi ekki verið grundvallardeilur um þetta. Þau sjónarmið að við eigum að ganga úr EES eða hætta að taka þátt í þessum sameiginlega innri markaði hafa verið mikil minnihlutasjónarmið. Sama má segja um það sjónarmið að opna bæri allar gáttir gagnvart þeim sem koma frá þriðju ríkjum.

Meginstefnan í pólitískri umræðu hefur sem sagt verið á þennan veg, annars vegar að taka þátt í opnum vinnumarkaði í Evrópu með þeim fólksflutningum sem það getur haft í för með sér og hins vegar að hafa stýringu gagnvart þeim sem koma þar fyrir utan. Eins og hæstv. dómsmálaráðherra rakti þá hefur þetta haldist í hendur, við höfum í raun og veru verið að setja stífari reglur um komu þriðja ríkis borgara hingað á sama tíma og við höfum verið að opna gagnvart þeim 25 ríkjum sem taka þátt í sameiginlegum markaði Evrópu.

Frumvarpið er því í góðum takti við þá stefnu sem hér hefur verið fylgt um alllangt skeið í þessum efnum. Hins vegar held ég að þær breytingar sem frumvarpið felur í sér séu til þess fallnar að gera kerfið bæði skilvirkara og öflugra.

Ég held að það sé jákvætt, eins og gert er í frumvarpinu, að færa ýmis ákvæði úr reglugerðum inn í lagatextann og ég held að fleiri breytingar sem því fylgja séu af því góða. Þar má minnast á, eins og margir ræðumenn hér í dag hafa gert, sérstakar heimildir vegna sérfræðinga og rýmkaðar heimildir varðandi námsmenn og fleira þess háttar. Ég held að þetta séu jákvæðar breytingar. Þarna er verið að taka tillit til raunveruleikans, þeirra þarfa sem upp hafa komið bæði hjá atvinnulífinu og háskólasamfélaginu og við því er brugðist með þeim tillögum sem fram koma í frumvarpinu að því leyti.

Á sama hátt er breytingin sem varðar hina frægu 24 ára reglu til þess fallin að færa lagatextann til samræmis við þá framkvæmd sem átt hefur sér stað frá 2005. Eins og menn þekkja kom þessi regla inn í lögin 2004. Fyrstu mánuðina þar á eftir komu upp nokkur tilvik þar sem ágreiningur var um beitingu hennar. Yfir það var farið eins og menn þekkja á árinu 2005 og framkvæmdinni breytt. Það má í rauninni segja að sú regla sem verið er að boða með frumvarpinu feli í sér að lagatextinn sé færður til samræmis við raunveruleikann að því leyti, eða framkvæmdina eins og hún hefur verið og það er auðvitað til bóta.

Það er ljóst að með margar þær breytingar, sérstaklega varðandi dvalarleyfin, er verið að gera samhliða breytingar á útlendingalögum annars vegar og lögum um réttindi og skyldur og atvinnuréttindi útlendinga á vegum félagsmálaráðuneytisins hins vegar. Það er verið að vinna í þinginu tvö frumvörp sem fylgjast að að þessu leyti. Ég tel það til mikilla bóta að samræma og samþætta enn þá frekar þá vinnu sem á sér stað á þessum tveimur vígstöðvum varðandi þetta því ljóst er að í mjög mörgum tilvikum þurfa þeir sem hyggjast koma hingað og sækja sér vinnu að leita til beggja þessara aðila, Vinnumálastofnunar og Útlendingastofnunar, og heyra því undir þessa löggjöf að því leyti. Ég held að öll samræming og samþætting til þess að einfalda kerfið og gera það gegnsærra sé af hinu góða og til mikilla framfara.

Ég hef velt því fyrir mér hvort rétt væri, eins og reyndar var minnst á í framsöguræðu hæstv. dómsmálaráðherra, að hafa þessi mál hugsanlega á forræði einnar stofnunar, þannig að það væri sami aðili sem fjallaði um og veitti leyfi bæði vegna atvinnuréttinda og vegna búsetu og dvalarleyfa. Það skref er ekki stigið í þessu frumvarpi en ég tel að við eigum áfram að leiða hugann að því þó að það verði kannski ekki gert í þessari umferð. Þá held ég að það geti verið til framfara að færa þetta á hendur einnar stofnunar þegar til framtíðar er horft. En svo er ekki gert í þessu frumvarpi. Engu að síður, eins og hæstv. dómsmálaráðherra nefndi, þá er verið að samræma og samþætta það starf sem fram fer á þessu sviði og það er til mikilla bóta.

Á sama hátt þurfum við auðvitað að huga að því hér í þinginu að það sé samræmi í málsmeðferð, annars vegar í allsherjarnefnd þar sem þetta frumvarp verður til umfjöllunar og hins vegar í félagsmálanefnd þar sem frumvarpið um atvinnuréttindi útlendinga verður rætt og við verðum hugsanlega að eiga nánara samstarf heldur en títt er milli nefnda um afgreiðslu þessara tveggja mála.

En til að ljúka máli mínu vil ég ítreka að ég held að þetta frumvarp sé til bóta. Veruleikinn á þessu sviði er stöðugt að breytast og við þurfum auðvitað að laga löggjöfina að því. Ég held að þau skref sem verið er að stíga með þessu frumvarpi séu mjög jákvæð og miði í þá átt að búa regluverkið þannig úr garði að við getum sem best framkvæmt stefnu okkar á þessum sviðum.