135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:23]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hæstv. dómsmálaráðherra varðandi Schengen að ég er algerlega sammála því að við værum í mun veikari stöðu varðandi allt eftirlit og gagnvart því að fylgjast með erlendum glæpaáhrifum ef við værum ekki í Schengen. Ég færði einmitt rök fyrir því í ræðu minni áðan að með samstarfinu á þessum vettvangi hefðum við getað náð árangri í stóra fíkniefnamálinu og þar var Europol lykilsamstarfsaðili.

Mig langaði að gera smáathugasemd við orð hæstv. ráðherra varðandi að sniðugt væri að vinna mál mjög þröngt í ráðuneyti og koma þeim svo fram í þingið af því að þá væru menn ekki bundnir af umsögnum og þá væri svo mikið svigrúm í þinginu að gera breytingar. Staðreyndin er bara allt önnur. Þetta var þó holl lexía og ég held að meiri hlutinn ætti virkilega að opna eyrun af því að hingað til hafa menn ekki náð neinum breytingum fram sérstaklega. Það er mikil tregða við að breyta frumvörpum og það sáum við þegar við afgreiddum svokallaðan bandorm nú fyrir stuttu.