135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

útlendingar.

337. mál
[16:26]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ef hv. þingmaður er þeirrar skoðunar að betra sé fyrir þrýstihópa að hafa áhrif á ráðuneyti heldur en þingmenn þá er það skoðun sem ég deili ekki með þeim. Hins vegar getur það verið í öllum málum að umsagnaraðilar hafi rangt fyrir sér. Þeir þurfa ekki að hafa rétt fyrir sér að mati meiri hluta þingsins.

Spurningin er sú, vilja menn ræða þetta á vettvangi þingsins og geta komið og skoðað umsagnir innan veggja þingsins eða vilja þeir fá málin þannig í hendur að búið sé að leita umsagnar og að nefndin þurfi ekki að leita neinna slíkra? Ég tel að það eigi að vera sú regla í þinginu að það geti leitað umsagnar, að ekki sé búið að klára allar umræður áður en mál kemur inn í þingið. Hvort sem menn svo fallast á skoðanir umsagnaraðila eða ekki, það er allt annað mál.