135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[17:03]
Hlusta

Kristján Þór Júlíusson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst af öllu, líkt og aðrir ræðumenn hafa gert, fagna þeirri styrkingu á björgunarflota landsins sem birtist okkur ágætlega í uppbyggingu þyrlusveitarinnar og áformum um styrkingu sjóflota okkar. Það er vel og því ber að fagna sem vel er gert. Til viðbótar þeim gríðarmörgu ályktunum sem fyrri ræðumenn hafa nefnt vil ég nefna að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefur ályktað um þetta mál í þessa veru og er að sjálfsögðu ætlast til þess að menn vinni í anda þeirra samþykkta sem þar eru gerðar.

Við getum öll verið sammála um að allir landsmenn eigi að hafa sömu möguleika á björgunar- og sjúkraflutningaþjónustu þegar slíkar aðstæður eru uppi. Sú umræða sem hér á sér stað í dag er ekki ný af nálinni. Þrátt fyrir það og þrátt fyrir víðtækan vilja, eins og hér hefur verið farið allrækilega yfir, hefur Landhelgisgæslan enn allan þyrlukost sinn settan niður á einum stað í landinu.

Í dag eru gjörbreyttar forsendur í þessari umræðu frá því sem áður hefur verið. Varnarliðið er farið, björgunarþyrlunum hefur verið fjölgað úr tveimur í fjórar og þyrluvaktir eru orðnar tvær. Ef við hugleiðum verkefni þyrlubjörgunarsveitarinnar, hvaða hlutverk og tilgang hún eigi að hafa, þá er það björgun á sjó og við strendur landsins, björgun við erfiðar aðstæður í landi, sjúkraflug, eins og hér hefur komið fram, leitarflug og menn hafa einnig verið að þreifa sig inn á það að nýta þessi tæki til löggæslu og gæsluflugs á sjó. Almenna reglan er sú að björgunartækjum sé valinn staður með það í huga að þau nái að þjóna sem næst því svæði sem þau eru sett niður á. Við sjáum þess dæmi frá nágrannalöndum okkar að björgunarþyrlur eru settar niður þar sem þeim er ætlað að hafa þann stysta viðbragðstíma sem kostur er, við sjáum þess dæmi í Noregi, Svíþjóð og Skotlandi og raunar fleiri löndum.

Samkvæmt tillögu nefndar sem sett var á laggirnar um framtíðarskipulag þyrlubjörgunarþjónustu — þær tillögur voru lagðar fram á árinu 2006 — kemur fram að að lágmarki sé eðlilegt að miða við að björgunargeta verði a.m.k. sú sama og nú er, þ.e. að unnt verði að sinna leit og björgun á þyrlu á landi og innan 200 sjómílna efnahagslögsögu Íslendinga við erfiðar veðuraðstæður og bjarga um borð í þyrlu allt að tíu manns á þeim ystu mörkum. Jafnframt að öryggi þyrluáhafnar verði eins vel tryggt og kostur er og ávallt verði þyrla í viðbragðsstöðu þegar önnur fer í lengri ferðir frá ströndu.

Ég tel að þessum markmiðum verði best náð hér á landi með því að staðsetja a.m.k. eina björgunarþyrlu á Norðausturlandi og þá á Akureyri. Í álitsgerð frá því í júlí á síðasta ári, sem unnin var af Sveinbirni Dúasyni, bráðatækni og vaktstjóra hjá Slökkviliði Akureyrar, og Birni Gunnarssyni, lækni á FSA og forsvarsmanni sjúkraflugs á Akureyri, voru dregnir fram kostir þess að hafa eina af þyrlum Landhelgisgæslunnar staðsetta á Akureyri. Þar kemur m.a. fram að unnt sé að stytta með þeim hætti flugtíma og slysa- eða björgunarstarf um eina og hálfa klukkustund á svæði sem marka má með línu sem dregin er í gegnum Ísland frá Siglufirði í norðri til Ingólfshöfða í suðri. Með öðrum orðum væri austurhluti landsins betur settur í björgunar- og öryggismálum sem þessum tímamun nemur ef farið yrði að þeirri tillögu sem hér liggur fyrir. Ekki þarf að fjölyrða um það að einn og hálfur klukkutími getur skipt sköpum þegar um slys og veikindi er að ræða, og jafnvel þó að biðtími verði mönnum ekki að aldurtila getur hann haft mjög mikil áhrif á batahorfur sjúklinga. Það má heldur ekki gleyma björgunarþættinum en augljóslega getur einn og hálfur klukkutími skipt sköpum t.d. við björgun úr skipsskaða á hafi úti.

Ef þær hugmyndir sem hæstv. ráðherra dómsmála hefur sett fram til umræðu á opinberum vettvangi, að flytja Landhelgisgæsluna frá Reykjavík til Keflavíkur, verða að veruleika lengist flugtími þyrlusveitarinnar til stórs hluta landsins enn meira og að mínu mati er það algjörlega óviðunandi. Til að standa að rekstri björgunarþyrlu þarf ákveðið bakland. Sjúkrahúsið á Akureyri er stærsta sjúkrahús utan Reykjavíkur og aðalvarasjúkrahús landsins utan höfuðborgarsvæðisins með tilliti til almannavarna. Læknar frá FSA hafa mannað sjúkraflugsvaktir sl. sex ár og er komin góð reynsla á það starf. Þá hafa sjúkraflutningamenn frá Akureyri mannað sjúkraflugvélar undanfarinn áratug. Loks má nefna að einnig skapast möguleiki á að draga úr kostnaði ríkissjóðs með því að hafa sameiginlega vakt lækna fyrir þyrlu og sérútbúna sjúkraflugvél.

Þegar hugað er að breytingum á núverandi fyrirkomulagi er eðlilegt að spurt sé um kostnaðarauka. Mér er hins vegar ekki kunnugt um að metið hafi verið hvort rekstur á björgunarþyrlum á Íslandi sé þjóðhagslega hagkvæmur. Það að reyna að leggja mat á það hvort yfir höfuð sé hagkvæmt að starfrækja björgunarþyrlur er viðkvæmt mál, hver er tilbúinn til að verðleggja líf og heilsu fólks sem er í neyð? En ég spyr hvort það hafi verið gert þegar ríkisstjórn Íslands samþykkti þann 18. apríl 2006 að haldið yrði úti tveimur þyrluvöktum allan sólarhringinn allan ársins hring og stefnt að því að hafa fjórar þyrlur í rekstri. Ég held ekki, en ég fagna þeirri ákvörðun engu að síður.

Hins vegar ber svo við að þegar rætt er um að staðsetja þyrlu á Akureyri þarf annars vegar að meta kostnaðarauka og hins vegar ávinning af því að hafa þyrlur bæði á Akureyri og í Reykjavík. Það á raunar að vera sjálfsagt mál að með þeim hætti sé unnið þegar fjármunum skattgreiðenda er ráðstafað. Grunnreglan ætti samt sem áður að vera sú að það gilti í öllum tilvikum, ekki einungis þeim ef byggja á upp þjónustu ríkisstofnana utan höfuðstöðva þeirra á höfuðborgarsvæðinu.

Ég hef byggt mál mitt að verulegu leyti á upplýsingum úr þeirri álitsgerð sem ég gat um hér í upphafi og vil að lokum, með leyfi forseta, vitna orðrétt til þeirrar álitsgerðar, en þar segir á bls. 8:

„Í skýrslu vinnuhóps dóms- og kirkjumálaráðuneytisins frá júlí 2006 er sagt að hagkvæmni og öryggi í rekstri krefjist þess að þyrlubjörgunarsveitin hafi bækistöð á einum stað og í tengslum við höfuðstöðvar Landhelgisgæslu Íslands sem nú er við Skógarhlíð í Reykjavík. Engin rök eru færð fyrir þessari fullyrðingu. Með sömu rökum mætti segja að Norðmenn ættu að staðsetja allar sínar björgunarþyrlur í Ósló. Einnig má benda á að í Skógarhlíðinni er stjórnstöð sjúkraflutninga á höfuðborgarsvæðinu en starfsstöðvar sjúkrabíla eru fjórar til að tryggja að hjálp berist sem fyrst.“

Fjölmargir aðilar, svo sem yfirstjórnir heilbrigðisstofnana á Norður- og Austurlandi, Læknafélag Íslands, björgunarsveitir, Landssamband björgunarsveita, hagsmunasamtök sjómanna og stjórnmálaflokkar hafa ályktað um að björgunarþyrlu eigi að staðsetja á Akureyri. Það er skynsamlegt fyrirkomulag og til þess fallið að auka björgunargetu þyrlusveitarinnar. Þetta er réttlætismál sem snýst um öryggi allra landsmanna og sjómanna á hafi úti.