135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

þyrlubjörgunarsveit á Akureyri.

44. mál
[17:11]
Hlusta

dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (S):

Herra forseti. Ég fagna þessari þingsályktunartillögu og þeim umræðum sem orðið hafa um þessi mál. Ég hef unnið að því frá því í febrúar 2006 að gjörbylta þyrlustarfsemi Landhelgisgæslunnar. Þá blasti við að ríkisstjórn Íslands mundi leggja það til við Bandaríkjamenn að við tækjum að okkur þyrlubjörgunarstörf í landinu. Þá vissu menn ekki að Bandaríkjamenn mundu fara með herlið sitt af landi brott í september árið 2006 en þegar sú ákvörðun lá fyrir í mars 2006 var ljóst að taka þyrfti þetta mál öðrum tökum en við ætluðum í febrúar á því ári. Ég held að allir þeir sem fara yfir það hvernig að þessu hefur verið staðið, hve vel Landhelgisgæslan hefur staðið að þessum málum og hvernig starfsmenn hennar hafa brugðist við þeim kröfum sem gerðar hafa verið í þessu efni, efist ekki um að þar hefur verið unnið af miklum metnaði og menn hafa lagt sig fram um að tryggja að hér yrði nægur kostur af björgunarþyrlum. Það hefur verið verkefni okkar sem berum ábyrgð á þessum hlutum frá því á árinu 2006 fram á þennan dag.

Síðan hefur það gerst á þessu tímabili líka að ein þyrla fórst, sem kallaði á enn önnur viðbrögð en við væntum, og hefur einnig tekist að fylla það skarð sem þar myndaðist. Ég bið menn að hafa þetta í huga þegar verið er að fjalla um þessi mál. Við höfum unnið hörðum höndum að því að tryggja að fjórar öflugar björgunarþyrlur væru í landinu til þess að svara þeim kröfum sem við gerum í þessu efni. Hvers vegna fjórar þyrlur? Til þess að alltaf sé ein nothæf ef á þarf að halda. Rannsóknir sýna að fjórar þyrlur ættu að geta tryggt okkur að ein sé alltaf til taks ef á þarf að halda, ef þær eru þrjár höfum við ekki þyrlu til taks ákveðinn dagafjölda vegna viðhalds og annarra slíkra hluta. Að þessu höfum við unnið og þetta höfum við lagt áherslu á að gera til þess að fyllsta öryggis sé gætt að þessu leyti. Ég tel að það hafi tekist, það markmið hafi náðst og það sé ákaflega mikilvægt að menn hafi það í huga þegar verið er að ræða um hvar þyrlur eigi að vera í landinu til þess að svara þessum kröfum. Það hefur alls ekki verið útilokað að þyrlur verði annars staðar í landinu en hér á höfuðborgarsvæðinu.

Það blasir við að það stórverkefni bíður okkar að við verðum að flytja þyrlukost Landhelgisgæslunnar frá Reykjavíkurflugvelli til Keflavíkurflugvallar vegna þess að þrengt er að aðstöðunni fyrir Landhelgisgæsluna á Reykjavíkurflugvelli, m.a. með byggingu Háskólans í Reykjavík á þeim slóðum. Það er verkefni sem við þurfum að vinna að og taka á. Það á hins vegar ekki að útiloka að við vinnum líka að því að fá til frambúðar öflugar þyrlur. Við höfum farið í samstarf við Norðmenn um að kaupa öflugar þyrlur sem eiga að vera komnar til landsins 2011–2014. Fram að þeim tíma þurfum við að brúa það bil sem skapaðist við brottför varnarliðsins með leiguþyrlum fyrir utan að við eigum eina þyrlu, Super Puma, mjög góða, öfluga þyrlu, en erum með þrjár á leigu. Við ætlum að kaupa þrjár stórar þyrlur, ef þessi áform ná fram að ganga, í samvinnu við Norðmenn. Hvers vegna í samvinnu við Norðmenn? Til að geta tryggt okkur þann besta tækjakost sem fyrir hendi er og til að geta tryggt okkur þá hagkvæmni í samlegð varðandi æfingar, birgðahald, varahlutahald og alla þá þætti sem snerta þjálfun flugmanna, að við getum alltaf tryggt að hér séu menn með bestu þjálfun.

Það hefur líka verið mikið átak hjá hinum ágætu starfsmönnum Landhelgisgæslunnar að tryggja mannskap til þess að fljúga þessum þyrlum, þjálfa fólk og fá fólk til þess að sinna þessum mikilvægu störfum. Hið ágæta starfsfólk hjá Landhelgisgæslunni vinnur, eins og við vitum, afrek, jafnvel oft á ári, og lætur að sér kveða við hinar erfiðustu aðstæður með góðum árangri. Það er forgangsverkefni hjá okkur, sem vinnum að þessu, að tryggja þessa grunnþjónustu. Ég tel að með þeirri framtíðarstefnu sem við höfum mótað höfum við lagt grunn að því að þessari grunn- og frumþjónustu verði sinnt í landinu.

Varðandi það að hafa þyrlu á Akureyri eða annars staðar í landinu er það málefni sem við höfum unnið að líka. Við höfum ekki sett það sem eitthvert forgangsmál að spara fé. Ef við hefðum velt fyrir okkur hverri krónu í þessu, ríkisstjórnin eða Alþingi, værum við ekki á þeirri braut sem við erum komin inn á. Við höfum tekið þessar ákvarðanir, við höfum lagt fram vel rökstuddar tillögur og við höfum unnið að því að tryggja grunninn þannig að yfirleitt sé hægt að sinna þessu í landinu. Ég tel að síðan komi það til álita hvort við gjörbreytum þyrlusveitinni þannig að menn séu ráðnir til þess að vera með sínum tækjum ákveðinn tíma og útkallsaðferðin verði ekki eins og hún er núna heldur verði þetta með öðrum hætti. Þá gæti þyrla með áhöfn dvalist á Akureyri í ákveðinn tíma eða alltaf ef skipt er um þyrlur o.s.frv. þannig að hægt sé að tryggja að þessi tæki séu til taks þar í landinu sem þörf er á hverju sinni. En það stangast á við áform okkar um samlegðarsamstarfið við Norðmenn og öll þau markmið, sem samhljómur hefur verið um og enginn hefur gagnrýnt, að ætla síðan að fara að brjóta upp grunninn í þessari þjónustu hér á landi og hafa ekki eina bækistöð, heimastöð, fyrir þyrlurnar í landinu á sama tíma og við veltum því fyrir okkur hvernig við högum nýtingu þyrlnanna, hvernig við högum áhöfnum hjá þyrlunum og hvernig við högum því að þyrlurnar geti verið utan sinnar höfuðstöðvar á hverjum tíma.

Þetta verða menn að hafa í huga. Þetta útilokar alls ekki að þyrlan sé á Akureyri, eða einhvers staðar annars staðar, einhverja mánuði á ári, en þetta er sú grunnhugsun sem menn eru að velta fyrir sér, að tryggja að þyrlur séu alltaf á þeim stöðum þar sem þeirra er helst talin þörf miðað við ákveðnar athafnir. Ég tala nú ekki um ef farið verður í að vinna olíu eða stunda olíurannsóknir á norðausturhorninu. Þá gefur augaleið að tryggja þarf góðar samgöngur og öryggi við landið. Það er miklu stærra mál en það sem við erum að fjalla um með þessum fjórum þyrlum þannig að það á ekkert að stöðva umþenkingar manna um uppbyggingu á þyrlustarfsemi í landinu, en hvort Landhelgisgæslan á að þjóna því eða einhverjir aðrir, það er annað mál, eins og er í öðrum löndum. Ef við ætlum að fara í auðlindanýtingu langt undan ströndum landsins tryggjum við ekki öryggi þeirra sem þar starfa nema með þyrlu á nálægum stöðvum í landi.

Ég tel því að þessi þingsályktunartillaga eigi fullan rétt á sér og að tryggja eigi að Landhelgisgæslan geti haldið úti björgunarþyrlu á Akureyri. En ég er ekki hlynntur því að brjóta upp stöðina sjálfa, miðstöðina sjálfa. Ég tel að það þjóni ekki heldur þeim markmiðum sem menn setja sér með þessari tillögu, að hér sé fyrir hendi í landinu öruggur grunnur þannig að hægt sé að veita þessa þjónustu við hinar erfiðustu aðstæður með því að í landinu sé þyrlufloti sem er í stakk búinn til að gera það.