135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:24]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að lýsa ánægju minni yfir því að hæstv. dómsmálaráðherra skuli vera viðstaddur þessa umræðu. Eins og hér kom fram í máli framsögumanns með fyrra þingmáli þá er það ekki venjan að ráðherrar séu viðstaddir svokölluð þingmannamál og mér finnst þetta vera mjög lofsverð nýbreytni. (Gripið fram í: Nýju þingsköpin.) Þetta eru ekki nýju þingsköpin, það er öllum í sjálfsvald sett hvenær þeir eru viðstaddir umræðu og hvergi kveðið á um það í þingsköpum að svo skuli vera. En ég vil lýsa ánægju minni með þetta og vænti þess að hæstv. dómsmálaráðherra bregðist við þeirri greinargerð sem ég mun nú flytja fyrir því frumvarpi sem við leggjum hér fram, þingmenn úr fjórum flokkum, sem eru auk mín hv. þingmenn Magnús Stefánsson, Karl V. Matthíasson, Jón Magnússon, Þuríður Backman og Gunnar Svavarsson. Þetta er í fjórða sinn sem þetta þingmál er flutt á Alþingi og snýr að því að takmarka áfengisauglýsingar í fjölmiðlum. Í greinargerð sem fylgir með frumvarpinu segir m.a.:

„Auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar hér á landi og hefur verið svo lengi. Það hefur þó aukist að framleiðendur og dreifingaraðilar áfengra drykkja reyni að koma þeim á framfæri í auglýsingum með því að nota líkar umbúðir og nöfn á óáfenga drykki sem þeir svo auglýsa.

Flutningsmenn vilja með frumvarpi þessu reyna að loka því gati sem virðist vera á löggjöfinni þannig að framleiðendur og dreifingaraðilar geti ekki farið í kringum bannið eins og að framan er lýst.

Á árinu 2001 kom út skýrsla á vegum ríkislögreglustjóra um áfengisauglýsingar. Þar kemur m.a. fram að í Noregi taki bann við áfengisauglýsingum einnig til auglýsinga á vörum með sömu merkjum eða einkennum. Í niðurstöðum nefndarinnar er að finna tillögu um að sú leið verði einnig farin hér á landi. Það er og vilji flutningsmanna að svo verði gert og löggjöfin hert eða eins og segir í skýrslunni:

„Það sem vekur sérstaka athygli við norsku löggjöfina er áherslan sem lögð er á að menn geti ekki komist fram hjá banninu með því að auglýsa vöru sem heimilt er að auglýsa, en með svo sterkri tilvísan til vöru sem ekki er heimilt að auglýsa að í raun er verið að auglýsa þá vöru. Með því að auglýsa tiltekna vöru sé í raun verið að auglýsa aðra vöru. Þá virðist löggjöfin skýr og nútímaleg.““

Hæstv. forseti. Hvað er hér verið að segja? Það er verið að rifja upp að í íslenskum lögum er bann við auglýsingum á áfengi og einstökum áfengistegundum. Það er jafnframt bent á að farið er fram hjá þessu banni með því að auglýsa tengdar vörur undir sama vörumerki en látið líta svo út að þar sé um óáfenga drykki að ræða þótt í raun og sann sé verið að auglýsa áfenga drykki, bjór eða aðra drykki. Í síðasta lagi er vísað í norska löggjöf þar sem reynt er að stoppa upp í þetta gat í löggjöfinni.

Út á hvað gengur síðan frumvarpið, sem er ekki meira en tvær lagagreinar? Annars vegar er það gildistaka laganna og hins vegar breyting á 20. gr. núverandi áfengislöggjafar þar sem kveðið er á um bann við áfengisauglýsingum. Þar segir í 3. málslið, með leyfi forseta:

„Bannið tekur með sama hætti til auglýsinga sem eingöngu fela í sér firmanafn og/eða firmamerki áfengisframleiðanda. Þó er framleiðanda sem auk áfengis framleiðir aðrar drykkjarvörur heimilt að nota firmanafn eða merki í tengslum við auglýsingu þeirra drykkja, enda megi augljóst vera að um óáfenga drykki sé að ræða í skilningi laganna og ekki vísað til hinnar áfengu framleiðslu.“

Síðan viljum við flutningsmenn bæta við, með leyfi forseta: eða hætta á ruglingi á milli áfengu framleiðslunnar og þeirrar sem verið er að auglýsa vegna nafns á vörunni, umbúða eða annarra einkenna.

Með öðrum orðum, við erum að hnykkja á, herða á skilgreiningu í því lagaákvæði sem kveður á um bann við áfengisauglýsingum.

Svo getum við tekið umræðu um það hvort leyfa eigi yfirleitt auglýsingar með áfengi. Mér fyndist miklu heiðarlegra, ef menn vilja hafa slíkt fyrirkomulag, að löggjafinn og þá framkvæmdarvaldið setji fram lagafrumvarp sem opni á slíkar auglýsingar. Ef það er hins vegar vilji löggjafans, eins og við búum við hér á landi, að banna áfengisauglýsingar, þá á að fylgja slíku banni eftir. Það eiga að vera hreinar línur. Ef það er vilji hæstv. dómsmálaráðherra og meiri hlutans á Alþingi að leyfa áfengisauglýsingar eiga menn að koma hreint fram og koma með lagabreytingar þar að lútandi. Ef menn hins vegar eru fylgjandi því að bann ríki við áfengisauglýsingum hljóta menn að vilja stoppa upp í það gat sem er nú á löggjöfinni. Við erum að óska eftir hreinum línum í þessu efni.

Ég minnist þess að ritstjórar á dagblöðum, þar á meðal á Fréttablaðinu, hafa viðurkennt að þeir séu í raun og sann að brjóta gegn markmiðum núverandi löggjafar með því að birta heilsíðuauglýsingar á bjór vitandi vits að þar er verið að auglýsa áfenga drykki þvert á það sem löggjöfin í raun og sann heimilar. Þá er hafður sá háttur á að hafa í agnarsmáu letri að um sé að ræða óáfengan drykk. Við sjáum þetta aftur og ítrekað líka í sjónvarpi að þar eru áfengisauglýsingar og síðan er einhvers staðar greint frá því í agnarsmáu letri að ekki sé um áfengan drykk að ræða.

Ég vil taka umræðu um heimildir yfirleitt til að auglýsa áfengi. Ég ber fulla virðingu fyrir því sjónarmiði að vilja fara inn á þá braut en þá eiga menn að koma hreint fram og beita sér fyrir breytingu á lögunum í þá veru. Ef menn eru hins vegar sama sinnis og ég og flutningsmenn þessarar löggjafar, að herða eigi á þessum lögum og sjá til þess að markmið þeirra nái fram að ganga, hljóta menn að veita þessu frumvarpi brautargengi. Það væri fróðlegt að heyra álit hæstv. dómsmálaráðherra um þetta efni.