135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:43]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ber fulla virðingu fyrir sjónarmiðum hv. þingmanns þótt ég sé þeim innilega ósammála. En eitt vil ég leiðrétta. Hv. þingmaður segir að það sé tilgangur flutningsmanna þessa frumvarps að banna áfengisauglýsingar. Hann segir enn fremur að þeir mæli fyrir því og séu hlynntir banni á áfengisauglýsingar.

Í rauninni kann þetta að vera rétt og er rétt og hvað mig varðar þá er það svo, en aðeins afvegaleiðandi einfaldlega vegna þess að í íslenskum lögum eru áfengisauglýsingar bannaðar. Í 20. gr. áfengislaganna segir, með leyfi forseta:

„Hvers konar auglýsingar á áfengi og einstökum áfengistegundum eru bannaðar.“

Þetta frumvarp gengur fyrst og fremst út á það að sjá til þess að þetta markmið laganna nái fram að ganga vegna þess að það þekkja allir að þessi lög eru brotin. Það er það sem við erum að gera fyrst og fremst.

Síðan getum við rætt, og það er önnur umræða, hvort eigi að breyta þessum markmiðum. Hvort við eigum að heimila áfengisauglýsingar. Það er bara allt önnur umræða. Við skulum gjarnan taka þá umræðu.

Hv. þingmaður vísar í dóma hjá Evrópusambandinu og víðar. Hann vísar einnig í það að allt umhverfi okkar, hið alþjóðlega umhverfi sé þannig vaxið að það sé erfitt að komast hjá því að sýna áfengisauglýsingar í íslenskum fjölmiðlum, í fréttaritum sem hingað berast, í útsendingum frá kappleikjum (Forseti hringir.) o.s.frv. Ég held hins vegar að þróunin verði á annan veg, (Forseti hringir.) hún verði á þann veg að takmarka auglýsingar af þessu tagi.