135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[17:51]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vísa til þess sem 1. flutningsmaður frumvarpsins, hv. þm. Ögmundur Jónasson, vék að í máli sínu áðan að það sem við flutningsmenn leggjum til er að reynt sé að gera virkt það bann við auglýsingum á áfengi sem er í gildi hér á landi. Það er fyrst og fremst markmið okkar að það bann sem er í gildi verði virt, að lögum verði haldið uppi og að úrræði til þess að lögum verði haldið uppi verði virk.

Eins og vikið hefur verið að í þessari umræðu er það að sjálfsögðu spurning hvort hafa eigi það bann sem gildir við auglýsingum á áfengi. Það er hárrétt sem hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að að áfengi er leyfð neysluvara. Sú umræða hefur hins vegar farið fram hér að áfengi er ekki venjuleg neysluvara, um sölu og neyslu áfengis gilda ákveðin lög þar sem reynt er að sporna við og takmarka neysluna. Sett hafa verið lög sem sýna fram á þann vilja löggjafans og skilning að mikilvægt sé að reyna að draga úr neyslu áfengis vegna þess að um hættulegan ávanabindandi vímugjafa er að ræða. Það er það sem gerir áfengi ólíkt öðrum vörutegundum sem við erum að tala um. Bann við auglýsingum á áfengi er leitt í lög þess vegna.

Það má alveg spyrja þeirrar spurningar, eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að áðan, hvort jafnræði sé með innlendum og erlendum fjölmiðlum. Í erlendum fjölmiðlum eru yfirleitt áfengisauglýsingar, í tímaritum, á netinu og víðar. Þessi umræða var líka virk á þeim tíma þegar Íslendingar, ég hygg einna fyrstir ef ekki fyrstir þjóða, settu bann við auglýsingum á tóbaki hér á landi. Þá var einmitt vísað til þess að mikið magn bærist af tímaritum og ýmsum öðrum hlutum að utan þar sem verið væri að auglýsa sígarettur. Sömu sjónarmið og rök áttu þá við eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vísaði til varðandi bann við auglýsingu á áfengi. Niðurstaðan varð sú að við héldum við með réttu, og sem betur fer, banni við auglýsingum á tóbaki. Það er viðurkennt í dag og stöðugt fleiri viðurkenna að tóbak er einn hættulegasti vímugjafi sem leyfður er í okkar heimshluta, drepur að því er talið er um 6 milljónir manna árlega.

Það er það sama með áfengið. Þar er um að ræða hættulegan vímugjafa sem veldur ótímabæru andláti mjög mikils fjölda fólks fyrir utan ýmsa aðra hluti sem eru afleiðingar af áfengisneyslu. Ég tel það svolítið villandi umræðu þegar verið er að vísa til spurninganna um að gera eigi einhvern greinarmun á mismunandi tegundum áfengis. Léttvín og bjór er ekkert öðruvísi fyrirbrigði en annað áfengi og léttvíns og bjórs er neytt í sama tilgangi og annarra áfengistegunda. (Gripið fram í: … drukkið meira?) Það fer eftir því hvernig hv. þingmaður blandar það en ég ætla ekki að blanda mér í það.

Svo er það spurningin um frelsishlutann, þ.e. með hvaða hætti og af hverju ríkisvaldið eigi að vera að blanda sér í það hvort fólk neytir eða kaupir þetta eða hitt. Eins og hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að, við höfum dóma sem hann vísaði í réttilega og þakka ég honum fyrir að reifa þá dóma í sinni ágætu ræðu, er það spurningin um það með hvaða hætti og hvernig hægt er að koma í veg fyrir mikla áfengisneyslu, þ.e. að við gætum meðalhófsreglunnar um að reynt sé að draga úr neyslu áfengis þó ekki þannig að farið sé út yfir eðlileg mörk.

Við höfum ákveðin varnarviðbrögð gegn áfengisneyslu. Það er í fyrsta lagi spurningin um aðgengi, það er spurningin um verðlagningu á lítra af alkóhóli og þriðja atriðið er að ekki sé verið að hvetja til áfengisneyslu með einhverjum hætti eins og t.d. auglýsingum. Þannig hefur það t.d. verið hér á landi að þrátt fyrir bann á áfengisauglýsingum hefur jafnvel verið dreift í framhaldsskólum ákveðnum áfengisauglýsingum, að sjálfsögðu á léttöli og öðru slíku sem þó tengist þekktum merkjum á áfengi. Við leggjum það frumvarp sem hér um ræðir fram til að koma í veg fyrir slíka hluti.

Um lengri tíma hafa léttvín, framleiðsla fólks í suðurhluta Evrópu, hluti af landbúnaðarframleiðslu, og bjór, í nyrðri hluta Evrópu, verið hluti af þeim raunveruleika sem fólk hefur búið við. Hvað svo sem það varðar hefur orðið gríðarlega mikil breyting á undanförnum árum. Ég ætla að vísa til þess að á þeim tíma þegar bjór var lögleiddur á Íslandi, það er ekki lengra síðan, var meðalstyrkleiki bjórs í heiminum um 4% og meðalstærð á einingu 33 centilítrar. Í dag er meðalstyrkleiki á bjór 5% og meðalstærð á einingu hálfur lítri. Þar er því um töluvert annað að ræða og í flestum tilvikum hefur verið um aukinn styrkleika að ræða með léttvínið og bjórinn.

Menn töluðu um það áður fyrr að fólk í ákveðnum löndum kynni að neyta áfengis sér til gagns og gamans og ekki væri við sömu vandamál að glíma og hjá okkur hér í kuldanum og vosbúðinni þar sem menn drykkju yfir sig eftir klukku á miðvikudögum. Var m.a. vísað í Bretland þar sem menn áttu að geta notið þessa vímugjafa með einstaklega kúltíveruðum og menningarlegum hætti.

Þannig háttar til með það ágæta land, Bretland, í dag að þar hefur áfengisneysla aukist meira en í nokkru öðru Evrópulandi. Þar eru vandamál vegna áfengis og áfengissýki orðin viðameiri en í nokkru öðru Evrópulandi. Neysla á áfengi, þ.e. lítri af alkóhóli á mann, hefur aukist verulega umfram það sem hefur verið að gerast í Evrópu að öðru leyti. Í Bretlandi hafa ekki verið neinar tálmanir varðandi auglýsingar, engar tálmanir varðandi aðgengi, hægt er að fá áfengi hvenær sem er sólarhringsins vegna þess að engin höft eða takmarkanir eru á því að það megi selja áfengi allar 24 klukkustundir sólarhringsins. Nú tala heilbrigðisyfirvöld á Bretlandi um að nauðsynlegt sé að gera mjög virkar ráðstafanir til að draga úr þeirri heilsuvá sem áfengisneysla veldur, m.a. með því að draga úr aðgengi, takmarka opnunartíma og athuga með það að draga úr eða takmarka auglýsingar.

Þegar við horfum upp á vandamál sem eru við lýði, m.a. í nágrannalöndum okkar, og hafa farið vaxandi — og hafa ber í huga að meðalneysla á áfengi hefur farið vaxandi á undanförnum árum — þá er það spurning um hver varnarviðbrögð okkar eigi að verða. Við höfum valið þá leið að hafa þetta leyfilegan vímugjafa. Við erum ekki að amast við neyslunni í sjálfu sér en við viljum reyna að takmarka hana þannig að hún valdi ekki heilsuskaða og auknum afbrotum því að það er tvímælalaust afleiðing mikillar áfengisneyslu, það er heilsutjón, dauði og afbrot. Það er það sem við viljum koma í veg fyrir og þess vegna viljum við beita ákveðnum úrræðum og þess vegna hefur verið sett auglýsingabann.

Nú verð ég að viðurkenna að ég er mjög viðkvæmur fyrir þeim sjónarmiðum að borgarinn sjálfur eigi að bera ábyrgð á sjálfum sér, ráða sjálfur lífi sínu og starfi og að hið opinbera eigi almennt ekki að hafa mikil afskipti þar af. En hitt er annað mál að við höfum valið annan kost í þessu þjóðfélagi. Við bönnum vímugjafa sem í sjálfu sér er ekkert skaðlegri en áfengi eða bjóða alla vega ekki upp á miklu meiri hættueiginleika en áfengi. Við leyfum áfengi þrátt fyrir að hundruð þúsunda manna deyi árlega úr áfengisneyslu. Við leyfum áfengi þó að það sé viðurkennt að áfengi leiðir af sér gríðarlega mikið heilsutjón hjá mjög mörgum einstaklingum, þúsundum einstaklinga. Þótt áfengi valdi miklu böli vítt og breitt í þjóðfélaginu leyfum við það vegna þess að við teljum að það sé heppilegri leið en áfengisbann. Það hefur verið reynt að fara þá leið og sú leið mistókst. Ég er alls ekki talsmaður þess að reynt sé að fara þá leið vegna þess að ég tel að hún sé röng eins og á við um það hvernig við nálgumst bann við ýmsum öðrum vörum sem við teljum óæskilegar. En þegar um er að ræða vörur sem bjóða upp á hættu eins og áfengi tvímælalaust gerir, eins og tóbak tvímælalaust gerir, eigum við í fyrsta lagi að reyna að takmarka aðgengið, við eigum að láta einstaklingana bera ábyrgð á sér sjálfum en við eigum að takmarka aðgengið, við eigum að haga verðlagningu með þeim hætti að það dragi sem mest úr neyslunni og við eigum ekki að reyna að hvetja til aukinnar neyslu með því að hafa virkar auglýsingar á efnum sem við teljum þjóðfélagslega óæskilegt að neytt sé í stórum stíl.

Það er í sjálfu sér ekki verkefni löggjafans að vera að skipta sér verulega af neysluvenjum borgaranna. En þegar um er að ræða hættuleg vímuefni hefur löggjafinn talið rétt að gera það, og þá íslenski löggjafinn sérstaklega, og beita m.a. bannákvæðum. Þau bannákvæði eru hins vegar ekki virk og því leggjum við fram þetta frumvarp til laga, til að koma með úrræði sem heimilar og gerir mögulegt að því banni við áfengisauglýsingum sem fyrir löngu var sett sem lög í landinu sé framfylgt. Það er fyrst og fremst markmið flutningsmanna að gera bann við auglýsingum á áfengi virkt ef þess er nokkur kostur.