135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

áfengislög.

63. mál
[18:06]
Hlusta

Jón Magnússon (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Telji hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson að bann hafi enga þýðingu og sé óæskilegt þá leggur hann fram frumvarp um að afnema það bann sem er í gildi á áfengisauglýsingum, það er náttúrlega eðlilegt og rökrétt að gera það. Við flutningsmenn þessa frumvarps erum ekki að gera neitt annað en að leggja fram tillögu þar sem koma fram ákveðin viðbrögð við því með hvaða hætti tryggja má að hægt sé að framfylgja þeim lögum sem Alþingi hefur þegar sett. En að sjálfsögðu er hvaða þingmanni sem er heimilt að leggja til að þeim lögum verði breytt. Við erum að gera tillögu um að sett séu í lög ákvæði sem gera mögulegt að framfylgja því banni sem er á áfengisauglýsingum. Það vita allir að því banni hefur ekki verið fylgt, það hefur verið þverbrotið með óbeinum auglýsingum og/eða merkjavörum sem tengja má beinlínis við áfengi.

Menn geta svo endalaust talað um óæskilega þjóðfélagslega starfsemi eða athæfi. Hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson vék að því að offita drægi svo og svo marga til dauða og það efa ég ekki. Í Bretlandi hafa menn bannað auglýsingar á t.d. ákveðnum vörutegundum, sérstaklega fyrir og í kringum barnaprógrömm, til að reyna að koma í veg fyrir að offita verði meira vandamál, ákveðnar fitueiningar og annað, vegna þess að menn gera sér grein fyrir að þarna er markaðurinn að reyna að troða óheppilegum og óæskilegum vörum upp á borgarana með ávirkum auglýsingum og það er reynt að bregðast við. Þó að ég sé innilega fylgjandi frelsi á sem flestum og helst öllum sviðum þá er það samt skylda þjóðfélagsins að reyna eftir þekkingu og getu að koma í veg fyrir óæskilegt, hættulegt þjóðfélagslegt athæfi.