135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

meðferð opinberra mála.

89. mál
[18:42]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka fyrir þessar undirtektir við frumvarpið frá þeim tveimur hv. þingmönnum sem hér hafa tekið til máls. Ég þakka fyrir ábendingar þeirra um betrumbætur á efni frumvarpsins. Ég held að fyllilega sé ástæða til að biðja hv. allsherjarnefnd að líta á málið og þær ábendingar sem fram hafa komið. Í lögunum eru ákvæði, sýnist mér, í 36. gr. um réttargæslumenn og þau ákvæði sem við þá eiga. Ég treysti því að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson skoði það — hann þekkir þessa löggjöf betur en ég — í ljósi þess sem hér er lagt til hvort tilvísun þurfi á milli eða setja þurfi sérstakt ákvæði um starf réttargæslumanns í þessu tilviki til að ná fram þeim sjónarmiðum sem hann setti fram.

Ég get að mörgu leyti líka tekið undir þau sjónarmið að það sé eðlilegt og jafnvel réttlætanlegt að þeir sem verða fyrir því að hlerunum sé beitt fái um það upplýsingar að þeim tíma liðnum sem talið er nauðsynlegt. Ég vildi þó fá að heyra sjónarmið þeirra sem beita þessu úrræði, lögreglu, áður en ég geri endanlega upp við mig hvað er skynsamlegt í þeim efnum. Það kann að vera að við ákveðin tilvik sé best að hlerun vitnist ekki yfir höfuð. Ég vil þó ekki loka alveg fyrir þann möguleika að fyrir því kunni að vera rök sem hægt er að fallast á að viðhalda leyndinni þó að ég taki undir það að almennt held ég að það viðhorf sem hv. þm. Pétur H. Blöndal setur fram um það efni sé rétt. En það væri vel þegið ef nefndin mundi vilja líta á þessi atriði í meðförum málsins. Það er meinalaust af minni hálfu að taka innihaldið úr frumvarpinu til athugunar við yfirferð á stjórnarfrumvarpinu um sakamál. Ég mundi ekki leggjast gegn því, virðulegi forseti.