135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

kosningar til Alþingis og kosningar til sveitarstjórna.

133. mál
[18:45]
Hlusta

Flm. (Árni Þór Sigurðsson) (Vg):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, með síðari breytingum, annars vegar og lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, með síðari breytingum hins vegar. Flutningsmenn ásamt mér að þessu frumvarpi eru hv. þm. Siv Friðleifsdóttir, Atli Gíslason, Grétar Mar Jónsson og Höskuldur Þórhallsson.

Þetta frumvarp er einfalt í sniðum. Efnisatriði þess eru þau að leggja til að við lögin um kosningar til Alþingis bætist tveir nýir málsliðir. Annars vegar við 12. gr. laganna og hins vegar við 1. mgr. 13. gr. laganna en þessar greinar fjalla um landskjörstjórn annars vegar og yfirkjörstjórnir hins vegar. En í 12. gr. laganna um kosningar til Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs eftir hverjar almennar alþingiskosningar fimm manna landskjörstjórn og jafnmarga til vara. Landskjörstjórn velur sér sjálf oddvita og skiptir að öðru leyti með sér verkum.“

Hér er lagt til að við þessa grein bætist tveir nýir málsliðir, svohljóðandi:

Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í landskjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

Í 2. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að það bætist tveir nýir málsliðir við 1. mgr. 13. gr. En í þeim málslið í 13. gr. segir í lögunum, með leyfi forseta:

„Í hverju kjördæmi er yfirkjörstjórn. Skal hún skipuð fimm mönnum og jafnmörgum til vara og eru þeir kosnir af Alþingi á sama hátt og landskjörstjórn. Kýs hún sér sjálf oddvita.“

Hér er lagt til að við þetta bætist eftirfarandi málsliðir:

Nú fær framboð sem á fulltrúa á Alþingi ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í henni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

Í þriðja lagi er í 3. gr. gerð samsvarandi tillaga um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna en í 4. mgr. 14. gr. í þeim lögum segir, með leyfi forseta:

„Í hverri kjörstjórn eiga sæti þrír aðalmenn og þrír varamenn sem allir skulu eiga kosningarrétt í sveitarfélaginu. Kjörstjórn kýs sér oddvita og ritara úr sínum hópi.“

Hér er lagt til að tveir nýir málsliðir bætist við, svohljóðandi:

Nú fær framboð sem fulltrúa á í sveitarstjórn ekki kjörinn fulltrúa í yfirkjörstjórn og skal því þá heimilt að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í kjörstjórninni. Áheyrnarfulltrúi hefur sama rétt og kjörinn fulltrúi annan en atkvæðisrétt.

Efnisatriði þessa frumvarps og tillagnanna um breytingu á lögum um kosningu til Alþingis annars vegar og á sveitarstjórnarlögum hins vegar, eru því skýr. Hér er ég að leggja til ásamt meðflutningsmönnum mínum að framboð sem á fulltrúa annars vegar á Alþingi og hins vegar í sveitarstjórn en fær ekki kjörinn fulltrúa í annars vegar landskjörstjórn og hins vegar yfirkjörstjórn, eigi rétt á því að tilnefna áheyrnarfulltrúa til setu í þessum stjórnum.

Kosningarrétturinn er einn mikilvægasti rétturinn í lýðræðissamfélagi. En lýðræði er ekki tryggt þótt kosningarréttur sé til staðar. Við þekkjum mýmörg dæmi um ríki þar sem aðeins einn flokkur hefur fengið að bjóða fram eða þar sem ríkjandi stjórnvöldum er tryggður sigur í kosningum með kosningasvindli. Kjörstjórnir gegna mikilvægu hlutverki við að tryggja að kosningar fari rétt og eðlilega fram, þær séu leynilegar og úrslit kosninga séu í samræmi við það sem kjósendur hafa raunverulega kosið.

Þetta er mikilvægt að hafa í huga og þó að við höfum ekki átt því að venjast hér á landi að farið væri með kosningaúrslit með þeim hætti sem við þekkjum víða frá úr heiminum þá breytir það engu um það að tilgangur kjörstjórna og markmið þeirra, þ.e. að sjá um að kosningar fari rétt og eðlilega fram, er að sjálfsögðu jafnmikilvægur hér og annars staðar.

Starf kjörstjórna er í raun heldur ekki flokkspólitískt í eðli sínu. Það er fyrst og fremst lýðræðislegs eðlis og það er mikilvægt að tryggja hagsmuni og sjónarmið sem allra flestra innan þeirra. Þess vegna er það mat mitt og okkar flutningsmanna að það hljóti að teljast eðlilegt að allir flokkar og framboðslistar, að minnsta kosti sem þegar eiga fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnum geti tekið þátt í störfum kjörstjórna.

Nú væri auðvitað hægt að velta því fyrir sér hvort þessi réttur ætti ekki að gilda um hvern þann aðila sem hyggst bjóða fram og það væri alveg hægt að færa rök fyrir því. En hér er ekki talin ástæða til að ganga svo langt heldur fyrst og fremst að tryggja það að þeir sem þegar hafa hlotið kosningu geti tryggt áheyrnarfulltrúa að minnsta kosti til setu í kjörstjórnum.

Ég vek athygli á því í greinargerð með frumvarpinu að eftir alþingiskosningar í vor fóru fram kosningar í landskjörstjórn og yfirkjörstjórnir í hverju kjördæmi hér á hv. Alþingi. Vegna hlutfallskosningareglunnar sem gildir við kosningar af þessu tagi, af því að kjörstjórnirnar eru skipaðar fimm mönnum, gat stjórnarmeirihlutinn tilnefnt fjóra af fimm fulltrúum í öllum kjörstjórnum. Það þýðir að þeir stjórnmálaflokkar sem núna starfa saman í meiri hluta í ríkisstjórn hafa 80% allra kjörstjórnarmanna eða tilnefna 80% allra kjörstjórnarmanna í landinu fyrir alþingiskosningar enda þótt þeir hafi ekki svo mikið fylgi á bak við sig. En þeir hafa um tvo þriðju hluta þingmanna á bak við sig.

Það hlýtur að vera sanngirnissjónarmið og því var hreyft við formenn þingflokka stjórnarflokkanna í vor að semja um jafnari og réttlátari skiptingu sæta í kjörstjórnum. Þannig að stjórnarandstöðuflokkarnir núverandi hefðu að minnsta kosti hlutdeild í kjörstjórnum á við kjörfylgi sitt. En það var ekki talið, eða að minnsta kosti var það ekki niðurstaðan, að það væri vilji til þess að koma til móts við það sjónarmið. Þess vegna m.a. er þetta frumvarp flutt.

Ég held reyndar að það hafi bara verið misskilningur hjá þeim sem stóðu að þeirri ákvörðun að vilja ekki koma til móts við þetta sjónarmið því þetta er ekkert flokkspólitískt starf í sjálfu sér. Það hlýtur að vera allra hagur, allra stjórnmálaflokka burt séð frá því hvort þeir eru í stjórn eða stjórnarandstöðu, það á nú fyrir flestum flokkum að liggja að starfa bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, það hlýtur því að vera hagsmunamál að tryggt sé að öll sjónarmið komi fram í kjörstjórninni.

Auðvitað hefði verið hægt að fara þá leið að leggja til að allir flokkar ættu hreinlega fulltrúa í kjörstjórninni. Við flutningsmenn þessa frumvarps veltum því aðeins fyrir okkur hvort við ættum að leggja það til að allir flokkar sem eiga setu á Alþingi eigi alltaf fulltrúa í öllum kjörstjórnum en við töldum, eftir að hafa ráðfært okkur við lögfróða menn að það gæti orðið flókið í framkvæmd og kjörstjórnirnar gætu þar af leiðandi þurft að vera býsna fjölmennar ef tryggja ætti það og hugsanlega misstórar eftir kjördæmum. Þess vegna var það niðurstaðan að leggja hér til, ég vil segja tiltölulega hóflega leið, þ.e. að tryggja að minnsta kosti áheyrnarfulltrúa í kjörstjórnum.

Við teljum að þetta sé góð leið til þess að taka á þeim lýðræðishalla sem við teljum að eigi sér stað í kjörstjórnum í dag og bendum á það í greinargerð að það hefði verið hægt að fara fleiri leiðir, en við þetta er okkar tillaga.

Frú forseti. Það þarf ekki að hafa mikið fleiri orð um þetta frumvarp. Þetta á bæði við um kosningar til Alþingis og um kosningar til sveitarstjórna. Ég tel eðlilegt að það gildi það sama um hvort tveggja. Ég vil líka geta þess að ég legg að sjálfsögðu til að þetta frumvarp gangi til hv. allsherjarnefndar til meðferðar og 2. umr. að lokinni þessari umræðu.

Ég vil þó vekja athygli á því að lögin um kosningar til sveitarstjórna heyra nú undir samgönguráðuneytið, áður undir félagsmálaráðuneytið, þau fluttust til samgönguráðuneytisins með lögunum um breytta verkaskiptingu innan Stjórnarráðsins. En ég vil hreyfa því hér, sem ég hygg að ég hafi látið koma fram í umræðum, að minnsta kosti í þingnefnd um það frumvarp, að mér finnst og hefur alltaf þótt dálítið sérkennilegt að lögin um kosningar til sveitarstjórna og umsýsla með sveitarstjórnarkosningum heyri undir félagsmálaráðuneytið eins og var, og nú samgönguráðuneytið, en ekki dómsmálaráðuneytið.

Ég sé enga sérstaka ástæðu til þess að framkvæmd kosninga, jafnvel þótt þær séu til sveitarstjórna, heyri undir það ráðuneyti sem fer með sveitarstjórnarmál. Mér finnst miklu eðlilegra að kosningar almennt, hvort sem það eru forsetakosningar, alþingiskosningar eða sveitarstjórnarkosningar, heyri undir eitt og sama ráðuneytið og þess vegna hef ég verið þeirrar skoðunar að lögin um kosningar til sveitarstjórna ættu í raun að færast undir dómsmálaráðuneytið eins og aðrar kosningar og dómsmálaráðuneytið ætti að hafa umsýslu með sveitarstjórnarkosningum eins og öðrum kosningum.

Þar liggur auðvitað fyrir heilmikil þekking á framgangi kosninga og það er væntanlega sama hvort menn eru að kjósa á Alþingi eða í sveitarstjórn. Það gilda öll hin sömu meginsjónarmið, meginreglur og lög. Ég vil því að það komi fram í umræðunni að það er mín skoðun að þessi lög ættu að heyra þar undir.

Rétt í lokin vil ég líka vekja athygli á því að í umræðunni síðasta sólarhringinn hefur sú skoðun komið fram meðal almennings að þegar óvenjulegt ástand skapast í sveitarstjórn eins og gerðist í borgarstjórn Reykjavíkur núna alveg nýverið, þá eru margir sem telja að það ætti að vera heimild eða möguleiki á því að knýja fram nýjar kosningar til sveitarstjórnarinnar. Nú er þetta ekki hægt samkvæmt gildandi lögum en það mætti alveg velta því fyrir sér að með sama hætti og hægt er að knýja fram kosningar til Alþingis með því að rjúfa þing, þá ætti hugsanlega að vera til einhver sérstakur réttur til þess að knýja fram kosningar að nýju í sveitarstjórn. Til dæmis þannig að ef helmingur atkvæðisbærra manna í sveitarfélaginu gerði slíka kröfu þá yrði skylt að boða til slíkra kosninga sem mundu þá væntanlega gilda til loka þess kjörtímabils sem væri yfirstandandi. Þetta er nú meira til gamans sagt hér í tengslum við aðra atburði.

Frú forseti. Ég hef gert grein fyrir helstu sjónarmiðum sem liggja á bak við það frumvarp sem hér er flutt. Það kann að vera að allsherjarnefnd telji eðlilegt að leita álits samgöngunefndar sem fer með lögin um kosningar til sveitarstjórna. Það er þá mat allsherjarnefndarinnar hvort það verður gert. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til allsherjarnefndar og síðan til 2. umr.