135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[19:42]
Hlusta

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi almennt séð og tel það vera framfaraspor, að það leiði til aukins skýrleika í þessum málum og opni fyrir leiðir fyrir störf útlendinga hér sem áður voru lokaðar. Ég nefni þar til að mynda fræðimenn frá Bandaríkjunum sem kenna við háskóla hér en eru utan Schengen-svæðisins. Þeim er nú gert auðveldara að koma hingað til að vinna.

Ég ætla ekki sérstaklega að fara efnislega í frumvarpið en vil þó nefna þrjú atriði sem mér þykir miður að frumvarpið taki ekki á og ég hefði viljað hafa inni. Ég vil í því sambandi geta þess að á 130. löggjafarþingi, 2003–2004, flutti ég sem varaþingmaður ásamt öðrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, frumvarp til laga um breytingu á lögum um atvinnuréttindi útlendinga.

Í fyrsta lagi lögðum við til að tímabundið atvinnuleyfi yrði veitt útlendingi til að ráða sig hér til starfa í tiltekinni starfsgrein en að leyfið yrði ekki bundið við atvinnurekanda.

Í öðru lagi gerðum við ráð fyrir heimildarákvæði í lögunum um að útlendingi væri heimilt, kæmi til uppsagnar, starfsloka eða annarra atvika þess sem hefði atvinnuleyfið — og þá á ég við útlending utan Schengen-svæðisins auðvitað, að leita að nýju starfi innan lands án þess að hann þyrfti að fara úr landi í millitíðinni.

Í þriðja lagi lögðum við til að heimilt væri að veita undanþágu að því er varðar dvalarleyfi og það speglaðist bæði inn í lög um atvinnuréttindi útlendinga og um útlendinga. Ef útlendingur sætti hér ofbeldi innan sambúðar eða samvistar eða hjúskapar væri gert ráð fyrir að unnt væri að koma til móts við hann með því að veita honum bæði dvalarleyfi og atvinnuleyfi. Ef maki með erlent ríkisfang sem giftist Íslendingi sætir ofbeldi í hjónabandinu má veita undanþágur frá reglum um dvalarleyfi, viðkomandi þyrfti ekki að fara út landi.

Rökin fyrir þessu þrennu vil ég nefna að það felur í sér einhvers konar vistarband í anda átthagafjötra fyrri alda að binda atvinnuleyfi við atvinnurekanda, það samrýmist að mínu mati ekki mannréttindahugsun nútímans. Í krafti atvinnuleyfis sem skráð er á atvinnurekanda er atvinnurekandanum veitt staða húsbónda gagnvart hjúi og komi til starfsloka útlendings með tímabundið atvinnuleyfi vofir brottvísun úr landi yfir honum eins og mara, samþykki atvinnurekandi ekki starfslok. Reynsla stéttarfélaga er að útlendingar í þeirri stöðu neyðist oftar en ekki til að sætta sig við alvarleg brot á kjarasamningi og ráðningarsamningi, bæði hvað varðar laun og önnur starfskjör. Þeir leita líka sjaldnar til stéttarfélaga eftir aðstoð við það.

Ég vil taka fram að þessi tillaga var studd bæði af Samtökum atvinnulífsins og ASÍ, þ.e. að binda ekki atvinnuleyfið við atvinnurekandann heldur að gefa það út á útlending í tiltekinni starfsgrein eða með öðrum hætti. Ég sit nú reyndar ekki í félagsmálanefnd en sit í allsherjarnefnd þar sem þessi mál koma samhliða upp eins og hæstv. ráðherra gat um. Ég beini því til félagsmálanefndar að huga að þessu atriði.

Annað vildi ég nefna að samkvæmt frumvarpinu gæti útlendingur með tímabundið atvinnuleyfi ráðið sig til starfa hjá öðrum atvinnurekanda en þyrfti ekki að fara úr landi ef því tímabili er ekki lokið.

Að því er varðar þriðja þáttinn þá er það kunnara en frá þurfi að segja að útlendar konur sæta gjarnan heimilisofbeldi og ofbeldis innan veggja heimilisins fremur en íslenskar konur. Ég vil geta þess — og þetta eru ekki alveg nýjar tölur sem ég nefni, mig minnir að þær séu frá árinu 2002 eða 2003 — að 14% kvenna sem leituðu til Samtaka um kvennaathvarf og Stígamóta voru konur af erlendu bergi brotnar meðan þær voru aðeins 3,75% af konum búsettum á Íslandi.

Það má leiða getum að því að fleiri konur af erlendum uppruna hafi haft þörf fyrir aðstoð en ekki leitað hennar vegna vanþekkingar sinnar á réttarstöðu sinni og fleiru. Tryggja þarf þessum konum sjálfsagða undanþágu frá lögum með beinu ákvæði eða beinu undanþáguákvæði og þær breytingar er að finna í frumvarpinu sem ég nefndi. Ég mælist til þess að hv. félagsmálanefnd taki þær til skoðunar. Ég ítreka að þær er að finna á þingskjali 1069, mál 720 á 130. löggjafarþingi.

Ég vænti þess að nefndin taki þetta til skoðunar, sérstaklega að því er varðar átthagafjötrana og þær erlendu konur sem því miður sæta allt of oft ofbeldi í sambúð sinni.