135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

atvinnuréttindi útlendinga o.fl.

338. mál
[19:58]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég fagna þessu frumvarpi því að það kveður skýrar á um stöðu útlendinga og þeirra sem sækja vinnu til Íslands. Hins vegar verð ég að benda á ýmislegt í því sem er dálítið skrýtið.

Í fyrsta lagi bendi ég á að fyrir nokkru fékk ég þær upplýsingar, að vísu dálítið gamlar, að helmingur mannkyns þyrfti að lifa af minna en tveim dollurum á dag og að helmingurinn af því fólki þyrfti að lifa af minna en einum dollara á dag. Það eru 8 millj. manns sem deyja úr hungri á ári sem hlýtur að vera ákaflega tekjulágt og fátækt fólk.

Öllu því fólki er haldið utan við Evrópusambandið, það má ekki koma að kjötkötlunum sem við sitjum að. Það frumvarp sem við ræðum hér er alveg sérstaklega gert til þess að hindra að allt þetta lið komi til Íslands. Það eru dálítið meinleg örlög fyrir hæstv. félagsmálaráðherra, sem er jafnréttissinni, að mæla fyrir frumvarpi sem byggir á slíkum forréttindum því að frumvarpið gengur allt út á forréttindi.

Í fyrsta lagi fá sérfræðingar með háskólamenntun að koma til landsins, alveg eins og skot og eins fljótt og hratt og hægt er. Það er ekki fólk úr þeim hópi sem ég nefndi áðan. Þeir hvorki svelta né þurfa að lifa af minna en einum eða tveimur dollurum á dag. Fjölskyldur þeirra fá líka alveg sérstaka meðhöndlun, sem og fjölskyldur íþróttamanna og þeirra sem koma hingað af mannúðarástæðum.

Hinn venjulegi launþegi getur fengið vinnu á Íslandi ef það er alveg á hreinu að enginn innan Evrópusambandsins geti sinnt starfinu hans. Þá má hann koma en bara mjög tímabundið. Sjá þarf til þess að hann verði rekinn strax aftur út og að hann ílengist ekki hérna, tekið er sérstaklega á því.

Íþróttadýrkunin er líka í gangi hér eins og alltaf. Íþróttamenn fá náttúrlega sérstaka meðhöndlun og fá að koma strax inn. Bæði íþróttadýrkunin og sérfræðidýrkunin eru það sem kallað er á ensku „brain drain“ eða atgervisflótti. Við sogum til okkar besta fólkið úr þessum fátæku löndum. Það er bara þannig.

Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að við getum ekkert opnað Ísland fyrir öllum heiminum. Það er gjörsamlega óframkvæmanlegt. Ég fellst alveg á frumvarpið með öllum þeim rökum sem þar standa. Ég bendi bara á hvað þetta er í rauninni óréttlátt og ósanngjarnt, lítið jafnréttissinnað og lítið félagslegt.

Námsmenn mega koma hingað en þeir mega ekki stunda neina vinnu, öndvert við íslenska námsmenn sem eiga helst að vinna sem mest með náminu nema þeir stundi vinnu í tengslum við námið. Sendimenn njóta náttúrlega alltaf forréttinda, þeir eru skattfrjálsir út um allan heim. Á Vínarráðstefnunni 1814–1815 var sitthvað samþykkt varðandi réttindi sendimanna og þeir njóta þeirra réttinda. Þeir og fjölskyldur þeirra njóta einnig sérstakra forréttinda samkvæmt þessu frumvarpi þannig að allt er það nú ósköp ófélagslegt.

Við skulum fjalla um málið í félagsmálanefnd og taka afstöðu til þess. Það er örugglega allt saman mjög skynsamlegt fyrir íslensk atvinnulíf. Ég vildi bara benda á hvað þetta er hræðilegt frumvarp gagnvart þeim hluta mannkyns sem við teljum væntanlega til meðbræðra okkar. Við teljum að hann eigi sinn rétt líka, sá hluti sem hefur minna en einn eða tvo dollara á dag sér til framfærslu og er um helmingur mannkyns.