135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:00]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Hæstv. félagsmálaráðherra las hér upp að í löggjöf flestra Evrópuríkja hefðu verið tekin upp lög sem takmarka uppsagnarrétt atvinnurekenda og það verður ekki séð að það hafi raskað starfsskilyrðum fyrirtækja í Evrópu. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort það geti verið að hún viti ekki af því að það sé viðvarandi atvinnuleysi um alla Evrópu og ekki bara pínulítið eins og hérna heldur 6, 7, 12, 14, 16%, og af hverju það stafar. Veit hæstv. ráðherra ekki að þingmenn frá þessum löndum, sumir hverjir, telja að það stafi af allt of stífum reglum á vinnumarkaði og allt of stífum réttarreglum um samskipti launþega og fyrirtækja? Það skyldi nú ekki vera að með því að binda slíkt í lög hætti fyrirtækin að ráða starfsfólk af því að það er svo erfitt að losna við það?

Þetta er nefnilega allt saman tvíbent og eins og ég gat um, þetta er markaður og um leið og menn byrja að hygla öðrum aðilanum á kostnað hins skekkist markaðurinn og það kemur annaðhvort fram sem lægri laun eða atvinnuleysi nema hvort tveggja sé. Við höfum búið við það á Íslandi að laun hafa hækkað stórlega og hér hefur ekki verið atvinnuleysi og það er eitt af því sem ég tel vera aljákvæðast við Ísland, það er ekkert atvinnuleysi. Þegar maður segir fólki þetta í Evrópu trúir það því ekki að til sé land þar sem ekkert atvinnuleysi er.