135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:03]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Menn hætta að sjálfsögðu ekki að ráða starfsfólk en þeir eru miklu tregari til og þeir eru miklu tregari til að auka rekstur eða láta reksturinn vaxa vegna þess að það er svo mikil áhætta fólgin í því að ráða fólk sem hefur bæði langan uppsagnarfrest og er jafnvel ekki hægt að segja upp, það er svo mikil áhætta fólgin í því að þeir bara hreinlega gera það ekki. Þeir halda rekstrinum í hefðbundnum böndum þannig að hann vex ekki, þetta er þekkt um alla Evrópu. Menn hafa velt vöngum yfir því hvernig stendur á því að atvinnuleysi er svona ofboðslega mikið í Evrópu. Þeir sem hafa kynnst Íslandi spyrja: Hvernig stendur á því að atvinnuleysi er ekkert á Íslandi?

Það er vegna þess að við höfum mjög lipran vinnumarkað og mjög lipur samskipti launþega og atvinnurekenda á báða bóga, herra forseti.