135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:05]
Hlusta

Flm. (Atli Gíslason) (Vg):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félagsmálaráðherra fyrir góðar undirtektir við þetta mál og hv. þm. Pétri Blöndal fyrir að eiga orðastað við mig út af þessu máli og koma fram með sín sjónarmið, sem ég mun nú reyna að leitast við að svara í stuttu máli.

Að jafna því saman að segja að atvinnuleysi gefi því grunn að hafa aðrar reglur en hér á landi er alveg órökstutt hjá hv. þingmanni. Það kom enginn rökstuðningur, þetta eru fullyrðingar. Að kenna ákvæðum um gildar ástæður við uppsagnir um atvinnuleysi í Evrópu er fráleitt að mínu mati. Ef efnahagsástandið hjá þessum þjóðum, hv. þingmaður vísaði til Þýskalands, er uppsagnarreglum að kenna þá er það býsna langsótt. Það er algjörlega ný hagfræði fyrir mér, það er býsna langsótt. Það hagar nú þannig til að það er alls ekki sama atvinnuleysisstig í öllum löndum Evrópu, þ.e. utan Íslands, því fer víðs fjarri, það er mjög mismunandi. Samt gilda takmarkanir á uppsagnarfrelsi.

Því var svo haldið fram í því samhengi af hv. þm. Pétri Blöndal að þetta gerðist ekki hérna vegna þess að hér væri ekkert atvinnuleysi. Það tel ég líka vera rangt. Það byggi ég á, hv. þingmaður, meira en aldarfjórðungs reynslu minni sem lögmaður fyrir stéttarfélög. Ég upplifi það að fólki sé sagt upp með óbilgjörnum og ómálefnalegum hætti jafnt þegar jafnvægi er í þjóðarbúskapnum á Íslandi og þegar ójafnvægi hefur verið, jafnt þegar verðbólga hefur verið mikil og lítil. Að fara því að færa þessar uppsagnarreglur upp sem einhverja orsök atvinnuleysis eða ekki atvinnuleysis er býsna langsótt hagfræði.

Ég byggi það líka á sömu reynslu minni sem lögmaður fyrir stéttarfélagið Eflingu og fleiri stéttarfélög í meira en aldarfjórðung að harka og óbilgirni hafi færst í vöxt. Ég nefndi það líka, hv. þingmaður, að í flestum fyrirtækjum gerist þetta ekki, í vel reknum fyrirtækjum eru reglur sem þessar almennt virtar í raun. Ég ræddi það sérstaklega að í illa reknum fyrirtækjum, og þau eru mörg, er þetta gert og þessi harka og óbilgirni hefur líka aukist á síðari árum. Það samræmist algjörlega reynslu minni.

Ég nefni það í frumvarpinu, hv. þingmaður gerði það að umtalsefni að það væri mjög erfitt að segja upp fólki, að standa frammi fyrir fólki og segja því upp. Ég átta mig ekki alveg á því að menn geti ekki staðið alveg keikir ef uppsagnarástæður eru fyrir hendi og sagt upp. Það teljast auðvitað málefnaleg rök, hv. þingmaður, ef starfsmaður uppfyllir ekki þær kröfur sem voru forsendur ráðningar, ef starfsmaður er áhugalaus um starfið, ef starfsmaður er óstundvís, ef starfsmaður á við áfengisvandræði að glíma og þar fram eftir götunum. Í slíkum tilvikum verður þó að reikna með að atvinnurekandi áminni viðkomandi starfsmann og hann verði að bæta ráð sitt og það er öllum til góðs, bæði atvinnurekandanum og starfsmanninum að atvinnurekandinn segi: Ég get ekki látið þetta líðast, og gefi viðkomandi kost á að bæta ráð sitt. Opin, gegnsæ og hreinskiptin samskipti eru öllum til góða, ekki að vera eins og strúturinn og stinga hausnum í sandinn. Það eflir fyrirtækin verulega að fylgja heiðarlegum, opnum, gegnsæjum reglum í samskiptum atvinnurekanda og launamanna, alveg eins og maður vill vera í samskiptum við annað fólk innan fjölskyldu, við vini og við aðra sem maður hittir á förnum vegi.