135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:10]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú ekki svo vélrænt sem hv. þingmaður vill vera láta, samskipti atvinnurekanda og launþega, þar spilar miklu, miklu fleira inn í, t.d. allur hópurinn sem heild starfsmanna.

Ég ætla að geta um ákveðið dæmi. Ég var einu sinni í stjórn fyrirtækis sem lenti í því að skorta verkefni. Þeir höfðu verkefni til tveggja mánaða en iðnaðarmennirnir voru með þriggja mánaða uppsagnarfrest, verkamennirnir með viku uppsagnarfrest. Hvað gerðu menn, herra forseti, til að lenda ekki í heljarinnar vandræðum þegar verkefnin þraut? Þeir sögðu upp öllum iðnaðarmönnunum, réðu síðan helminginn aftur. Svo jukust verkefnin og það kom í ljós að þessi ákvörðun var ekki rétt, og hvað gerðu menn? Þeir þorðu ekki að ráða fleiri iðnaðarmenn heldur létu þá iðnaðarmenn sem voru starfandi vinna yfirvinnu, það borgaði sig. Menn þorðu ekki að taka áhættuna af því að sitja uppi með fólk sem hafði þriggja mánaða uppsagnarfrest verkefnalaust.

Þannig gekk þetta í nokkurn tíma, verkefni bættust við, iðnaðarmennirnir unnu yfirvinnu og helmingur þeirra var atvinnulaus úti á götu. Ekkert gerðist með verkamennina, þar var vikuuppsagnarfrestur. Ég ætla að vona að hv. þingmaður skilji þetta, að lenging uppsagnarfrests þýðir það að menn fara sér varlega í því að ráða fólk og hafa fólk í vinnu sem er með langan uppsagnarfrest, svo maður tali nú ekki um þegar það eru komnir 6 mánuðir eða 12 mánuðir. Þetta held ég að allir ættu að skilja. Þeir sem maður talar við frá Evrópusambandinu átta sig fullkomlega á því af hverju atvinnuleysið er. Það er vegna þessara atriða og margra, margra fleiri sem gera vinnuumhverfið svo stíft og erfitt viðureignar að fyrirtækin þora helst ekki að ráða nýjan starfsmann.