135. löggjafarþing — 51. fundur,  22. jan. 2008.

réttur verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum.

164. mál
[21:12]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég nefndi þetta dæmi um það hvernig aukinn réttur í uppsagnarákvæðum getur komið fram sem atvinnuleysi, því að helmingur iðnaðarmannanna sem áður starfaði hjá fyrirtækinu var atvinnulaus á þessum tíma. Ég nefndi þetta líka sem dæmi um það að um leið og menn setja aukin skilyrði og kvaðir á samband launþega og atvinnurekenda, t.d. bara að uppsögnin skuli vera málefnaleg, menn þurfi að færa rök fyrir máli sínu, sem mér finnst í sjálfu sér allt í lagi, en líka það að það skuli vera miskabætur og skaðabætur, það gerir ekkert annað en það að menn verða enn þá varkárari í því að ráða fólk. Allar svona kvaðir og skilyrði rugla það jafnvægi sem er á vinnumarkaðnum í dag og ef við setjum nógu mikið af kvöðum verður afleiðingin sú að atvinnuleysið vex, sem er hið mesta böl sem ég hef kynnst.