135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

störf þingsins.

[13:35]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegur forseti. Það varð strax mjög umdeilt þegar viðskiptabankarnir hófu innrás sína inn á fasteignalánamarkaðinn fyrir rúmum þremur árum en margir höfðu þó trú á því að það væri almenningi til bóta að almenn íbúðakaupalán færðust til viðskiptabankanna. Reynsla er nú komin á þetta fyrirkomulag og í stuttu máli sýnir nýjasta könnun sem Íbúðalánasjóður hefur staðið fyrir að eftir því sem meiri reynsla fæst af viðskiptabönkunum á þessu sviði þeim mun minni stuðningur er við það að þeir helgi sér þetta útlánasvið og þeim mun meiri stuðningur er við starfsemi Íbúðalánasjóðs. Ég tel að það sé vegna þess að reglur sem gera bönkunum að fylgja eðlilegum viðskiptareglum við útlán þessara lána eru ekki í löggjöf og ákvarðanir þeirra um uppgreiðsluálag, um afslátt á vöxtum sem fellur niður og vextir hækka við tiltekin skilyrði og annað slíkt sem þrengir mjög að einstaklingunum sem taka lánin, sýna að það er óviðunandi fyrir íbúðakaupendur að búa við þessi skilyrði.

Af því að hv. þm. Birkir Jón Jónsson tekur þetta mál upp vil ég inna hann eftir því hvort það að hann taki málið upp sé yfirlýsing um að Framsóknarflokkurinn hafi fallið frá þeim áformum sínum, sem voru mjög skýr á síðasta kjörtímabili, að leggja niður starfsemi Íbúðalánasjóðs.