135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:01]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir fyrirspurn sem var dreift í októbermánuði í tengslum við átök í Reykjavík út af hinu þekkta REI-máli. Ekki óraði mig fyrir því þegar fyrirspurninni var dreift að þegar hún kæmi til umfjöllunar á Alþingi væri kominn enn einn meiri hluti í Reykjavíkurborg. Ég óska hæstv. fjármálaráðherra að sjálfsögðu til hamingju með nýja meiri hlutann.

En nokkrir þættir þurfa að vera alveg klárir. Í fyrsta lagi var REI stofnað sem hlutafélag um útrásarstarfsemi Orkuveitunnar undir forustu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, núverandi heilbrigðisráðherra og áður formanns Orkuveitunnar. Í öðru lagi eru bæði Landsvirkjun og Rarik, fyrirtæki í eigu ríkisins, í útrásarverkefnum með einkaaðilum. Í þriðja lagi er það þannig að Sjálfstæðisflokkurinn vann í samstarfi við Framsóknarflokkinn að sameiningu útrásarfyrirtækisins REI við útrásarfyrirtækið Geysir Green. Það endaði allt saman með ósköpum sem ég ætla ekki að rifja upp hér.

En ég ætla að rifja upp nokkur ummæli fyrrverandi borgarstjóra, Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Hann sagðist 4. október einungis hafa heyrt í fjölmiðlum fullyrðingar um að flokksmenn hans í borgarstjórn styddu ekki ákvörðun um sameiningu. Hann sagði hreinskiptar umræður hafa orðið um málið og að niðurstaðan hafi verið sú að hann hafi fengið umboð til að ganga frá málinu.

Síðan segir hann 8. október: „Við ætluðum okkur aldrei að vera til lengdar í þessu fyrirtæki því það er í raun ekki samræmanlegt okkar áherslum að við séum að taka þátt í áhættusömum rekstri í fjarlægum löndum með einkaaðilum.“

Síðan segir hann 17. október: „Sjálfstæðisflokkurinn hefur þá eindregnu afstöðu að opinber fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur eigi ekki að vera í áhættusömum samkeppnisrekstri.“

Vegna þeirra orða sem þarna féllu lagði ég fram þá fyrirspurn sem hér um ræðir til hæstv. fjármálaráðherra í framhaldi af því sem þarna er sagt um stefnu Sjálfstæðisflokksins varðandi það að ríkið sé í útrás í fyrirtækjum ríkisins, þar sem hæstv. fjármálaráðherra fer með eignarhaldið, bæði í Landsvirkjun og Rarik. Fyrirspurnin hljóðar svo:

Hyggst ráðherra draga fyrirtækin Landsvirkjun og Rarik sem eru að fullu í eigu ríkisins, út úr útrásarverkefnum sem þau taka þátt í í samstarfi við einkaaðila svo sem Landsbanka Íslands hf.?