135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:15]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Eins og ég skil hæstv. ráðherra þá er ég honum sammála um það að þessir hlutir geta farið saman. Það er alveg hægt að hugsa sér að opinber fyrirtæki, vegna þess að orkufyrirtækin okkar eru fyrst og fremst opinber, geti komið að útrásarverkefnum og ég tel að við eigum miklu hlutverki að gegna í því sambandi. Þess vegna sannast það núna, kannski enn frekar en nokkru sinni fyrr að það að sjálfstæðismenn í borginni skyldu tapa völdunum sem gerðist í októbermánuði og klúðra þannig samstarfinu við Framsóknarflokkinn, það er eitthvert mesta klúður ársins, enda voru flestir álitsgjafar sem talað var við um áramótin þeirrar skoðunar að svo væri. Þar sem stefna flokksins er sú sem fram kom í máli ráðherra hér, a.m.k. þess arms sem þar er um að ræða, þá eru þau orð sem ég hafði eftir fyrrverandi og verðandi borgarstjóra, Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni, að Sjálfstæðisflokkurinn hafi þá eindregnu afstöðu að opinber fyrirtæki eins og Orkuveita Reykjavíkur eigi ekki að vera í áhættusömum samkeppnisrekstri, bara einfaldlega dauð fallin. Þetta er ekkert smámál sem hér er um að ræða og full ástæða til að halda því vakandi og ræða það einu sinni enn á hv. Alþingi.

En miðað við orð hæstv. ráðherra þá er allt í lagi að vera í samstarfi við einkaaðila en svo gæti vel verið að það væri ekki alveg sama hvaða einkaaðilar það eru. Það sé allt í lagi að starfa með Landsbankanum en hugsanlega ekki allt í lagi af hálfu sjálfstæðismanna að vinna með einhverjum öðrum fyrirtækjum. Það væri kannski gaman að vita aðeins meira um það.