135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

útrásarverkefni Landsvirkjunar og Rariks.

110. mál
[14:17]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Það er greinilegt að það er eitthvað annað en efnisatriðin sem vaka fyrir hv. þingmönnum Vinstri grænna og ég ætla að fyrirgefa þeim það að þeir séu sárir vegna borgarstjórnarinnar.

Varðandi stefnu Sjálfstæðisflokksins þá endurspeglast stefna Sjálfstæðisflokksins í stefnuyfirlýsingunni og hún kom fram í landsfundarályktun sl. vor sem er efnislega sama niðurstaða og ég las upp úr hvað varðar stefnuyfirlýsinguna.

Varðandi REI-málið þá er niðurstaða þess máls sú að allir í borgarstjórn í dag eru sammála afstöðu hinna svokölluðu sexmenninga í Sjálfstæðisflokknum sem kom fram í haust. Það er hætt við málið eins og það var lagt upp þegar það upphaflega kom fram og leiddi til þess að borgarfulltrúi Framsóknarflokksins sveik Sjálfstæðisflokkinn vegna þess að hann taldi sig vera ósáttan við hann en síðar gekk hann nákvæmlega inn á málflutning þeirra og REI-málinu var öllu breytt.

Síðan varðandi svarið sem hv. þm. Siv Friðleifsdóttir spyr um, þá var spurningin sem ég var spurður:

Hyggst ráðherra draga fyrirtækin Landsvirkjun og Rarik, sem eru að fullu í eigu ríkisins, út úr útrásarverkefnum sem þau taka þátt í í samstarfi við einkaaðila, svo sem Landsbanka Íslands hf.?

Fyrsta svar mitt við þeirri spurningu var nei og er enn þá nei. Ég sagði það þá og það getur ekki verið skýrara en það. Það vill meira að segja þannig til að þeim spurningum sem hér er verið að varpa upp hef ég svarað í fjölmiðlum frá því í haust þegar REI-málið kom upp, bæði hvað varðar afstöðuna til umræddra fyrirtækja, Landsvirkjunar og Rariks og verkefna þeirra og eins varðandi afstöðu Sjálfstæðisflokksins.

Síðan vil ég fagna því að a.m.k. ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir erum sammála um þessa afstöðu mína til útrásarverkefnanna.