135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattskylda framlaga úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

138. mál
[14:20]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Sú fyrirspurn sem hér liggur fyrir hefur ekki valdið pólitískum kollsteypum eins og sú fyrri fyrirspurn sem hér hefur verið svarað. Eftir því sem ég veit best er allt óbreytt frá því hún var lögð fram við upphaf þings en af ýmsum ástæðum hefur henni ekki verið svarað fyrr en núna, sem er aukaatriði. En mér finnst mikilvægt að fá svör frá hæstv. fjármálaráðherra um það hvort hann muni beita sér fyrir afnámi skattlagningar á framlög og styrki sem einstaklingum eru greiddir úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

Í dag eru slík framlög og styrkir skattskyldir með fullri tekjuskattsálagningu. Framlög úr sjúkra- og styrktarsjóðum hafa aukist og eru orðið umtalsvert álag á sjóðina og það segir manni bara að það styrktarkerfi sem annars er fyrir alla, þ.e. frá Tryggingastofnun ríkisins, nær ekki að styðja þá einstaklinga sem verða fyrir sjúkdómum eða áföllum eða tilfallandi útlátum vegna heilsubrests eða til þess að efla heilsu og þurfa þar af leiðandi að leita til styrktar- og sjúkrasjóðanna. Þetta á sérstaklega við um ákveðna styrki eins og til tannlækninga.

Að vísu er það svo að þeir sem eru fársjúkir, og fársjúkir eru skilgreindir mjög þröngt, geta dregið kostnað frá framlögum úr framlagningu styrktarsjóðanna þegar þeir gera upp tekjur sínar eða greiðslur úr sjóðunum. Sjóðirnir gefa upp þessar greiðslur og með staðgreiðslukerfi skatta hafa greiðslurnar skilað sér betur og þar af leiðandi hafa þeir einstaklingar sem hafa hlotið þessa styrki greitt meira eða betur en áður var og ég vil vísa til frumvarps til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt sem var lagt fram árið 2003 af Jóhönnu Sigurðardóttur, Ögmundi Jónassyni, Guðjóni A. Kristjánssyni og Ágúst Ólafi Ágústssyni um þetta sama efni um breytingu á þessari skattlagningu og þeirri greinargerð sem með henni fylgir.