135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattskylda framlaga úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

138. mál
[14:25]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Fjármagn sjúkrasjóðanna er óskattað þar sem 1% iðgjald fyrirtækja inn í þá sjóði er dregið frá skatti. Vandi kemur líka upp ef einhver maður á rétt á svona bótum úr sjúkrasjóði og annar ekki. Sá sem á ekki rétt á því þarf að afla tekna til að greiða viðkomandi þjónustu og borgar af þeim tekjum skatt. Þarna kemur ákveðinn vandi ef annar á að vera skattfrjáls en hinn ekki.

Svo koma upp önnur vandamál sem eru þau þegar fólk á rétt á bótum hjá sveitarfélagi, t.d. vegna barnaheimilis, þá er það óskattað hingað til, á meðan það er sem hlunnindi, en ef sveitarfélagið fer að borga það beint til manna og þeir borga svo barnaheimilið þá kemur upp misræmi sem hefur reyndar verið tekið á. En ég tel að meðan einn þarf að borga og getur ekki dregið frá skatti og annar þarf að borga og getur dregið frá skatti, þá gangi það ekki upp og þess vegna er eðlilegt að það sé skattað.