135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattskylda framlaga úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

138. mál
[14:26]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég gat ekki skilið það svo á hæstv. fjármálaráðherra að hann hygðist beita sér fyrir breytingum á skattalöggjöfinni hvað þetta varðar en ég tel að það sé í raun og veru óeðlilegt að fólk sé skattlagt vegna greiðslna sem það fær upp í kostnað vegna veikinda. Við getum sagt okkur það sjálf að ef almannatryggingakerfið væri sterkara og öflugra en það er í dag gagnvart sjúkum og þeirra sem þurfa á stuðningi að halda þá væri þessi þörf fyrir greiðslu úr sjúkrasjóðum ekki fyrir hendi og þar vil ég sérstaklega nefna tannlækningar sem hafa nær alfarið farið út úr tryggingakerfinu. Á árunum áður þegar ekki var sama þensla og jafnmikið fjármagn í umferð í þjóðfélaginu og nú er voru tannlækningar niðurgreiddar og kostnaðarlausar fyrir börn. Við búum öðruvísi að einstaklingum í dag og þar af leiðandi er stöðugt meiri ásókn í styrki frá sjúkrasjóðum til tannlækninga. Við getum spurt sem svo: Viljum við horfa á kerfi sem er byggt upp eins og það er í dag eða viljum við breyta þessu þannig að stuðningurinn komi frá almannatryggingakerfinu, þ.e. að þetta sé ekki sótt til sjúkrasjóðanna? Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra: Hvernig telur hann að eigi að skattleggja það fé sem almenningur safnar sem gjafafé sem eru framlög til einstaklinga sem lenda í umtalsverðum fjárútlátum vegna veikinda, missa vinnuna og jafnvel húsnæði og aðrar eignir vegna veikinda?