135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattskylda framlaga úr styrktar- og sjúkrasjóðum.

138. mál
[14:29]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þuríði Backman fyrir að taka þetta mál upp sem er brýnt hagsmunamál fyrir launafólk. Ég er þeirrar skoðunar að greiðslur úr styrktarsjóðunum sem ganga til fólks sem þarf að leita sér lækninga vegna meina sinna eigi ekki að vera skattlagðar. Nú er það svo í sumum tilvikum að þær eru ekki skattlagðar eða einstaklingum er heimilt að færa fram reikninga og þá erum við t.d. að tala um greiðslur vegna krabbameinslækninga. Það var gott skref sem hæstv. ráðherra steig á sínum tíma. Ég held að ég fari örugglega rétt með. Ég held hins vegar að greiðslur úr styrktarsjóðunum eigi almennt að vera skattlausar (Forseti hringir.) og hið sama eigi reyndar að gilda um aðra sjóði, söfnunarsjóði sem verkalýðshreyfingin rekur (Forseti hringir.) og þá er ég að horfa t.d. á greiðslur úr verkfallssjóðum. Þær tel ég að eigi ekki að vera skattlagðar.