135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

skattlagning á tónlist og kvikmyndir.

150. mál
[14:36]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Herra forseti. Ég þakka fyrir fyrirspurnina. Þetta er mjög áhugavert málefni og í takt við tímann, þær miklu breytingar sem ganga yfir. Fyrri spurningin er á þessa leið:

„1. Hefur ráðherra í hyggju að endurskoða fyrirkomulag skattlagningar á tónlist og kvikmyndir í ljósi þess að æ meira af tónlist og kvikmyndum er hlaðið niður af netinu?“

Af orðalagi fyrirspurnarinnar má ekki skýrt ráða um hvers konar skattlagningu á tónlist og kvikmyndir spurt er. Það er hvort það er vegna viðskipta, framleiðslu, sýninga eða annarra hluta. Í svari fyrirspurnarinnar er gengið út frá því að spurningin beinist að skattlagningu vegna viðskipta með tónlist og kvikmyndir.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, skal greiða í ríkissjóð virðisaukaskatt af viðskiptum innan lands á öllum stigum eins og nánar er kveðið á um í lögunum. Í 1. mgr. 14. gr. laganna kemur fram að virðisaukaskattur skuli vera 24,5% en í 2. mgr. 14. gr. eru tilgreindar undanþágur fyrir tilteknar vörur og þjónustu sem skulu bera 7% virðisaukaskatt. Undanþágan tekur m.a. til geisladiska, hljómplatna, segulbanda og annarra miðla með tónlist en ekki mynd, sbr. 10. tölul. 2. mgr. 14. gr. laganna.

Þetta ákvæði á við óháð því hvernig sjálf salan á viðkomandi vöru fer fram, þ.e. hvort það er í gegnum netið eða í verslun. Á vegum OECD hefur um nokkurt skeið verið unnið að samræmdum reglum um skattlagningu vegna sölu á vöru og þjónustu í gegnum netið. Kemur sú vinna til vegna vandkvæða sem verið hafa meðal aðildarríkja OECD um samræmt fyrirkomulag skattlagningar vegna vörusölu á netinu yfir landamæri m.a. vegna niðurhals á netinu. Ísland hefur fylgst með og tekið þátt í þessari vinnu og fyrirséð er að innan skamms verði lokið við gerð slíkra leiðbeinandi reglna innan OECD. Í kjölfar þess mun ráðuneytið taka til nánari skoðunar hvort ástæða sé til að endurskoða framkvæmd og fyrirkomulag skattlagningar á vörum sem hægt er að hlaða niður af netinu.

„2. Hyggst ráðherra beita sér fyrir endurskoðun á þessari skattlagningu með þann möguleika í huga að niðurhal hætti að teljast ólöglegt en listamönnum verði jafnframt tryggðar sanngjarnar tekjur?“

Það hvort eða hvenær niðurhal teljist ólöglegt eða ekki snýr að hugverkaréttindum og öðrum þáttum sem ekki eru á forræði fjármálaráðherra. Endurskoðun á skattlagningu með þann möguleika í huga að niðurhal hætti að teljast ólöglegt hefur því ekki komið til skoðunar í ráðuneytinu.