135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

hús Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði.

328. mál
[14:46]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Mikil menningarverðmæti felast í gömlum húsum og innréttingum eins og innréttingunum í Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins á Seyðisfirði. En því miður hefur skilningur ekki alltaf verið nægilegur á því hversu mikilvægt sé að standa vörð um þessi verðmæti. Mig langar til að nefna glæsilegar gamlar innréttingar sem hafa farið forgörðum og það eru meðal annars gömlu lyfjaverslunarinnréttingarnar sem voru í Reykjavíkurapóteki sem nú eru farnar úr því húsi og verslunarinnréttingarnar í Egils Jacobsens húsinu í Austurstræti. En báðar þessar gömlu og merkilegu innréttingar hafa orðið að víkja fyrir veitingastöðum.

Gamalt verslunarhúsnæði hefur mikið aðdráttarafl fyrir ferðamenn og þá sem vilja kynna sér söguna og gera hana lifandi. Þess vegna er mikilvægt að standa vörð um þessi verðmæti og að ríkið styðji við varðveislu slíkra menningarverðmæta. (Forseti hringir.) Ég vil bara þakka fyrir gott starf Minjaverndar í þágu gamalla húsa og menningarverðmæta.