135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

hús Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins á Seyðisfirði.

328. mál
[14:48]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég vil líka þakka hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur fyrir að taka þetta mikilvæga mál hérna upp. Mér fannst svolítið á svörum hæstv. ráðherra að hann svona væri næstum því að skella skuldinni á heimamenn varðandi þetta mál, dró það fram að heimamenn hefðu ekki gengið til samninga við ráðuneytið.

Ég er alveg sannfærð um það að heimamenn hafa örugglega ekki gert sér grein fyrir því að vegna þess að þeir gengu ekki til samninga þá skapaði það yfirvofandi hættu á að innréttingarnar yrðu teknar. Alla vega kom það þeim mjög í opna skjöldu eins og hér kom fram fyrr í umræðunni.

Óháð því hver forsagan er þá voru þessar fréttir nokkuð særandi sem maður heyrði, að það væri verið að rífa niður þessar innréttingar. Það er mjög gott að menn séu að ná núna saman um niðurstöðu. Ég fagna því sérstaklega að innréttingarnar fái að halda sér. Það á að gera upp húsið og Minjavernd og heimamenn eiga að finna því nýtt hlutverk. Það stefndi illa en niðurstaðan verður góð og ég held að við séum á hárréttri leið að passa upp á þessi menningarverðmæti. Þetta er frábært hús og (Forseti hringir.) mjög skemmtilegar innréttingar.