135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

Háskólinn á Akureyri.

249. mál
[14:55]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Þegar leitast er við að svara spurningu hv. þingmanns um það hvernig ég hyggist treysta stöðu Háskólans á Akureyri þá er auðvelt að svara því þannig að vísa einfaldlega til þess sem gert hefur verið í málefnum háskólans á undanförnum missirum.

Það má með sanni segja að Háskólinn á Akureyri hafi stækkað og dafnað undanfarin áratug. Námið í skólanum, eins og hv. þingmaður þekkir, er mjög fjölbreytt og margt af því tengist beint höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar, sjávarútvegi, líkt og menn sáu fyrir sér í upphafi. Skólinn er nú að mínu mati orðin helsta menntastofnun Norðurlands og einn af hornsteinum íslensks menntakerfis.

Í Háskólanum á Akureyri stunda núna tæplega 2.000 nemendur fjölbreytt nám, en í upphafi voru nemendur rétt um hálft hundrað. Samhliða þessu hefur Háskólinn á Akureyri aukið námsframboð sitt umtalsvert. Ég kem að því síðar.

Í upphafi bauð háskólinn einnig upp á nám á tveimur fræðasviðum en í dag er námið mun fjölbreyttara og rekur skólinn öflugar kennsludeildir á sviði heilbrigðisvísinda, kennslufræða, viðskipta- og raunvísinda ásamt félagsvísindum. Það má líka nefna það hér að margir nemendur stunda nám í fjarkennslu. Víðs vegar á landinu hefur skólinn verið leiðandi afl í þróun þess valkostar á háskólastiginu og sumir segja mér að hann sé stærsti háskólinn í mínu heimasveitarfélagi sem er Hafnarfjörður.

Af framansögðu er ljóst að ég hef í minni tíð sem menntamálaráðherra lagt áherslu á að efla almenna starfsemi Háskólans á Akureyri. Jafnframt hef ég í góðu samstarfi við skólann, og meðal annars hv. þm. Birki Jón Jónsson, stuðlað að eflingu annarra þátta í umhverfi og starfsemi skólans og nefni ég þar helst húsnæðismál, rannsóknir og samstarf skólans við atvinnulíf og þjóðlíf.

Hins vegar tel ég líka mikilvægt að það hefur náðst hér á hinu háa Alþingi þverpólitísk samstaða um mikilvægi Háskólans á Akureyri. Ég held að það sé einn af þeim þáttum sem hefur leitt til þess að hann hefur verið að þróast farsællega á síðustu árum.

Háskólinn hefur tekið fullan þátt í alþjóðavæðingu háskólakerfisins. Til að efla starfsemina enn frekar hefur skólinn fengið heimild mína til að nýta þann sveigjanleika sem rekstrarform fyrirtækja hafa við að starfrækja átaksverkefni. Þannig á háskólinn ráðandi hlut í þróunarfélaginu Þekkingarvörðum ehf. er stefnir meðal annars að uppbyggingu vísindagarða við háskólann. Það félag á síðan stóran hlut í Orkuvörðum sem mun sjá um rekstur orkuskóla þar sem fram mun fara alþjóðlegt meistaranám í endurnýjanlegum orkugjöfum.

Það hefur mikil uppbygging átt sér stað á háskólasvæðinu. Það má segja að með opnun Borga I, rannsókna- og nýsköpunarhúss í október 2004 hafi verið lagður hornsteinn að áframhaldandi uppbyggingu rannsókna- og vísindastarfsemi skólans.

Það er haldið áfram að byggja, bæði kennslu- og rannsóknahúsnæði og það er núna í undirbúningi og í einkaframkvæmd er verið að byggja Borgir II af sömu aðilum og byggðu Borgir I þar sem meðal annars er gert ráð fyrir því að Orkuskólinn verði til húsa og það er nú þegar unnið að IV. áfanga kennsluhúsnæðis hans.

Í mars var mér boðið til skólans þar sem mér var sérstaklega kynnt stefna Háskólans á Akureyri fyrir tímabilið 2007–2011, en þar er hlutverk hans skilgreint mjög ítarlega og honum mörkuð ákveðin sérstaða í háskólakerfinu á Íslandi sem ég tel mikilvægt. Þann 18. desember 2007 undirritaði ég síðan nýjan þriggja ára kennslu- og rannsóknasamning við háskólann. Þessi nýi samningur er grundvallaður á stefnumiðum stjórnvalda og á birtri stefnu Háskólans á Akureyri til ársins 2010, sem sagt stefnunni sem hann kynnti um vorið fyrir ári síðan.

Í samningnum eru sett fram sameiginleg markmið samningsaðila og varðaðar leiðir til að ná þeim markmiðum. Fjallað er um sérstök verkefni sem skólinn mun leggja áherslu á í sínu starfi en honum er meðal annars ætlað að leiða þróun fjarnáms á háskólastigi, vera alþjóðleg miðstöð norðurslóðasamstarfs með áherslu á kennslu og rannsóknir sem hafa sérstaka þýðingu fyrir íslenskt atvinnulíf og svo mætti lengi telja.

Ég tel þó mikilvægast í þessu samhengi að samningurinn er árangurstengdur. Í viðauka við hann hafa verið sett fram mælanleg markmið sem farið verður yfir reglulega á tímabilinu í samráði við skólann og á milli skólans og ráðuneytisins. Þetta eru nýmæli í samningsgerð við háskóla og á eflaust eftir að efla starf Háskólans á Akureyri til muna.

Samhliða þessu er stefnt að stórauknum framlögum til Háskólans á Akureyri. Þau verða hækkuð um 75 millj. kr. á árinu 2008 og aftur um 100 millj. kr. á árunum 2009–2010. Alls verða því framlög til Háskólans á Akureyri aukin um 275 millj. kr. á ársgrundvelli á þessum samningstíma. Ég geri ráð fyrir því að þessi aukning muni efla Háskólann á Akureyri jafnt á sviði kennslu sem og rannsókna og styrkja stöðu hans í hinu alþjóðlega vísindasamfélagi.

Í ljósi þessa tel ég að starfsemi Háskólans á Akureyri hafi verið efld til muna hin síðari ár með þeim verkefnum sem ég hef hér farið yfir og hún stendur því að mínu mati fyllilega undir stefnu um eflingu menntunar og nýsköpunar samanber byggðaáætlun 2006–2009.