135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

listgreinakennsla í framhaldsskólum.

270. mál
[15:17]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. menntamálaráðherra svörin sem voru viðamikil, efnismikil. Eins og hv. þingmenn heyrðu átti hæstv. ráðherra fullt í fangi með að koma öllu til skila á þeim stutta ræðutíma sem ætlaður er hér. Svör hæstv. ráðherra sæta nokkrum tíðindum því að ég veit til þess að fjöldi fólks hefur verið að bíða eftir yfirlýsingum ráðherra eftir álit umboðsmanns Alþingis. Ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með svör hæstv. ráðherra að hún skuli draga í efa ákveðna þætti álits umboðsmanns og vera jafnvel í grundvallaratriðum ósammála ákveðnum þáttum þess.

Nú er það svo að tónlistarnemar sem eru í alvarlegu tónlistarnámi og geta samkvæmt lögum fengið ákveðnar einingar fullgiltar til stúdentsprófs eru þar með að greiða í tónlistarskólunum skólagjöld sem eru þá einingar sem að mínu mati ættu að vera á ábyrgð ríkisins. Það er grundvallaratriðið í mati umboðsmanns. Hæstv. ráðherra lýsir sig ósammála þessu og telur að það eigi einungis við kjarnagreinarnar en ekki kjörsviðið.

Ríkislögmaður, sem hæstv. ráðherra vitnar líka í, segir að ólíklegt sé að viðkomandi eigi bótarétt vegna þess að viðkomandi nemar hafi sjálfir kosið að fara í það nám sem um ræðir án þess að um skyldunám sé að ræða. Fyrstu viðbrögð mín eru þessi: Framhaldsskólinn er ekki skyldunám, hann er valkvæður og innan hans tíðkast fjölbrautasvið, þar með listnámsbraut, og að mínu mati ætti ríkið að vera jafnábyrgt fyrir einingunum sem þreyttar eru á listnámsbrautunum eins og öðrum einingum.

Hæstv. forseti. Það á eftir að fjalla frekar um þetta mál og svar hæstv. ráðherra nú á næstu dögum. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hún gaf.