135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

innflutningur landbúnaðarvara.

296. mál
[15:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Fyrir margt löngu gerðu ríki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar með sér samning um frjálst flæði á landbúnaðarvörum og í því fólst að leyfa átti innflutning á bannvörum með tollkvótum til að tryggja lágmarksinnflutning. Í byrjun átti magnið að vera 3% af innanlandsneyslu á viðkomandi vöru en síðan skyldi það aukast í 5% á sex árum. Hugsunin á bak við þetta var sú að á þessum lokaða markaði ætti aukið framboð að lækka verðið en það er þekkt hagfræðilögmál.

Mig langar að spyrja hæstv. landbúnaðarráðherra nokkurra spurninga:

1. Hvernig hefur innflutningur landbúnaðarvara með tollkvótum þróast sem hlutfall af innanlandsneyslu?

2. Hefur alltaf verið flutt inn það magn sem boðið var í? Ef svo er ekki, til hvaða úrræða hefur þá verið gripið?

3. Var ekki áætlað að með aðild Íslands að Alþjóðaviðskiptastofnuninni mundi innflutningur landbúnaðarvara aukast sem hlutfall af innanlandsneyslu og að aukið framboð mundi lækka verðið?