135. löggjafarþing — 52. fundur,  23. jan. 2008.

losun koltvísýrings o.fl.

299. mál
[15:27]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Pétur H. Blöndal) (S):

Herra forseti. Ég leyfi mér að beina fyrirspurn til hæstv. umhverfisráðherra um losun koltvísýrings sem sparast með virkjun Kárahnjúkavirkjunar. Mikil umræða varð um Kárahnjúka á sínum tíma, hefur dálítið dalað síðan og ég er mjög ánægður með að Jökla, þetta skaðræðisfljót sem áður var, er nú farin að vinna fyrir okkur Íslendinga og breyttist í elskulega laxveiðiá þegar fram liðu stundir.

Það var bent á ýmislegt, m.a. að arðsemi yrði neikvæð af virkjuninni. Það hefur komið í ljós að svo er ekki. Það var bent á gífurlegan leka sem yrði í gegnum jarðlögin. Svo fór ekki. Ferðaþjónusta átti að hrynja. Hún hefur blómstrað þvílíkt að ef virkjunin hefur haft þau áhrif er það bara til hins góða að takmarka ferðaþjónustuna þannig að við ráðum við fjölda ferðamanna. Það áttu að vera jarðskjálftar líka o.s.frv. Ekkert af þessu hefur ræst. Nú er blómlegt atvinnulíf á Austurlandi og þessi virkjun malar gull fyrir Íslendinga.

Alþjóðleg umhverfisverndarsamtök hafa iðulega beitt þrýstingi til að ná fram markmiðum sínum. Er þar skemmst að minnast banns á veiðum á sel og hvölum o.s.frv. sem hefur komið mjög illa við frumbyggja norðurhjara. Hefur þessum samtökum verið slétt sama um afdrif þess fólks af því að markmiðið var svo mikilvægt. Ég hygg að þegar umhverfisverndarsinnarnir komast að því og heyra svör hæstv. ráðherra við fyrstu spurningu minni muni þeir auka þrýsting á Íslendinga vegna þess að þessi samtök trúa flest á að hlýnun jarðar vegna koltvísýringsmengunar sé staðreynd. Þau munu þá auka þann þrýsting á Íslendinga að virkja hverja einustu sprænu, hvern einasta hver og allan þann jarðhita sem við búum yfir vegna þess hvað það sparar mannkyninu mikla koltvísýringsmengun. Þess vegna langar mig til að spyrja hæstv. ráðherra:

1. Hvað sparar Kárahnjúkavirkjun mannkyninu mikla losun koltvísýrings miðað við að álið væri framleitt í Kína með rafmagni sem væri framleitt með brennslu kola?

2. Hvað er þessi sparnaður í losun koltvísýrings stórt hlutfall af losun bílaumferðar hér á landi?

3. Hvað gætu Íslendingar sparað mannkyninu mikla losun koltvísýrings ef öll virkjanleg orka yrði virkjuð?

4. Mun íslenska ákvæðið um heimild til losunar koltvísýrings ekki breytast í íslenskt ákvæði um skyldu landsins til að virkja á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í Balí?

5. Hvernig hyggst ráðherra standa vörð um náttúruperlur eins og Gullfoss og Dettifoss gegn hugsanlegri kröfu erlendra umhverfisverndarsamtaka um virkjanir þegar mannkynið stendur frammi fyrir þeirri vá sem hlýnun jarðar er talin vera?