135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta.

[10:34]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Beinni spurningu þingmannsins er ekki hægt að svara óundirbúið héðan úr ræðustól Alþingis. Málið er að sjálfsögðu alvarlegt. Allir hafa gert sér grein fyrir því.

Þegar ákveðið var að fara með þorskveiðikvótann í 130 þús. tonn fyrir þetta fiskveiðiár samkvæmt tillögu Hafrannsóknastofnunar lagði Framsóknarflokkurinn til að farið yrði í 150 þús. tonn, ef ég man rétt. Þau 20 þús. tonn sem þar munar hefðu ekki breytt gríðarlega miklu varðandi það atvinnuástand sem nú er að skapast. Aðalatriðið er að verið er að taka ábyrga ákvörðun til að byggja upp þorskstofnana til framtíðar. Í millitíðinni skapast því miður ástand sem við þurfum að bregðast við. Hv. þingmaður vék að þeim uppsögnum sem við höfum fylgst með á undanförnum dögum. Mótvægisaðgerðum ríkisstjórnarinnar er að sjálfsögðu ætlað að taka á því ástandi, m.a. með því að skapa ný menntunar- og fræðslutækifæri, einnig að fjölga verkefnum í sambandi við verklegar framkvæmdir, t.d. í sambandi við viðhald eins og kynnt hefur verið, en einnig með auknum framkvæmdum á sviði samgöngumála. Þótt þessar framkvæmdir gagnist kannski ekki alltaf beint því sama fólki og unnið hefur við fiskvinnslu, munu þær auka umsvif og almenn viðskipti á viðkomandi svæðum.

Mikilvægt er að allir geri sér grein fyrir því að málið er alvarlegt og að allir leggi gott til og menn taki höndum saman um að bregðast við þessum vanda. Þess vegna fagna ég ábyrgum viðbrögðum frá verkalýðsforustunni sem mér hafa borist til eyrna. Ég mun að sjálfsögðu hlusta gaumgæfilega á ráðleggingar þeirra.