135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

mótvægisaðgerðir vegna niðurskurðar þorskkvóta.

[10:37]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Allar góðar hugmyndir verða að sjálfsögðu teknar með í púkkið. Hv. þingmaður vék að því í fyrri ræðu sinni að ríkisstjórnin hefði sett á laggirnar nefndir til að skoða atvinnuástand á tilteknum svæðum með tilliti til þessara aðstæðna. Áður hafði starfað hér á tímabili fyrri ríkisstjórnar sérstök nefnd sem fór yfir ástandið á Vestfjörðum og mörgu af tillögum hennar hefur verið hrint og er verið að hrinda í framkvæmd. Nú er komin í gang önnur sambærileg nefnd sem hugar að atvinnuástandi á Norðvesturlandi, einkanlega í Húnavatnssýslum og Skagafirði, og við erum nú að ýta úr vör þriðju nefndinni sem huga mun að aðgerðum á norðausturhorninu og suðurfjörðum Austfjarða.

Auðvitað veit maður ekki nákvæmlega hvað út úr slíku kann að koma en hugmyndirnar eru margar og við munum reyna að bregðast við þeim með jákvæðum hætti.