135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

uppsagnir í fiskvinnslu.

[10:41]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég vísa til þess sem fram kom í máli mínu hér áðan. Ríkisstjórnin er með mótvægisaðgerðir á prjónunum og hefur verið að framkvæma þær í samræmi við það sem tilkynnt var fyrir nokkrum mánuðum en menn verða auðvitað að svara þeirri spurningu þegar þeir gagnrýna það ástand sem nú er upp komið: Vildu þeir ekki fara að tillögum Hafrannsóknastofnunar? Ef ég man umræðuna rétt frá síðasta sumri voru Vinstri grænir ekki í hópi þeirra sem mest gagnrýndu þá ákvörðun að fara að tillögum vísindamanna í þessu efni.

Það verður að hafa í huga að hér er verið að færa tímabundnar fórnir til að geta byggt upp þorskstofninn í framtíðinni. (Gripið fram í.) Í millitíðinni skapast ástand sem verður að bregðast við og birtist okkur núna með ýmsum hætti en sem betur fer er almennt atvinnuástand í landinu þannig að það ætti að vera hægt fyrir margt af þessu fólki að finna sér aðra vinnu á meðan þetta ástand varir. Auðvitað er það breytilegt eftir landshlutum hvernig atvinnuástandið er og þess vegna höfum við sett á laggirnar sérstakt nefndarstarf til að huga að tilteknum svæðum sem staðið hafa höllum fæti og þar sem hagvöxtur hefur verið lítill. Sú vinna er nú í fullum gangi eins og ég lýsti áðan.