135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

bifreiðastyrkir til hreyfihamlaðra.

[10:56]
Hlusta

Dýrleif Skjóldal (Vg):

Frú forseti. Mig langar að beina fyrirspurn minni til hæstv. heilbrigðisráðherra Guðlaugs Þórs Þórðarsonar um styrk til hreyfihamlaðra vegna bílakaupa.

Forsaga málsins er sú að styrkur þessi var veittur á fjögurra ára fresti þeim sem á því þurftu að halda að nota bíl vegna hreyfihömlunar sinnar. Árið 2004 var reglugerð nr. 752/2002 breytt þannig að styrkur til bifreiðakaupa er nú greiddur út á fimm ára fresti í stað fjögurra. Styrkurinn sem um ræðir er 1 millj. kr. Og nú segir það sig sjálft að slík upphæð dugar skammt í bílakaupum, sérstaklega þegar um er að ræða skipti á fimm ára gömlum bíl, sem er sérútbúinn og mikið keyrður, og á nýlegum eða nýjum bíl.

Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort hann hyggist breyta þessari fjárhæð til samræmis við það sem eðlilegt getur talist sem milligjöf á milli hinnar gömlu bifreiðar og þeirrar nýju eða hvort hann hyggist halda upphæðinni en greiða styrkinn út á tveggja ára fresti þannig að skjólstæðingar hans sem eiga ferðir sínar að miklu leyti undir bifreið komnar geti verið sæmilega öruggir um að bifreið þeirra sé ekki alltaf að bila og að þeir komist sína leið tiltölulega áfallalaust.

Í framhaldi af því langar mig líka að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn til að beita sér fyrir því að 69. gr. laga almannatrygginga sem fjallar um árlegar breytingar á bótum og greiðslum Tryggingastofnunar nái einnig yfir alla styrki og greiðslur sem reglugerðir Tryggingastofnunar kveða á um þannig að fjárhæðirnar sem nefndar eru í reglugerðunum uppfærist árlega (Forseti hringir.) og að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs eins og það er sagt í lögunum.