135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

innheimtulög.

324. mál
[11:23]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Hér er til 1. umr. frumvarp til innheimtulaga sem hæstv. viðskiptaráðherra hefur lagt fram. Sá sem hér stendur á sæti í viðskiptanefnd þingsins sem mun í framhaldinu fá frumvarpið til efnislegrar meðhöndlunar að lokinni þessari umræðu. Ég lýsi yfir mikilli ánægju með að frumvarpið skuli vera komið fram en það á að setja ákveðinn ramma utan um framkvæmd innheimtu og jafnvel í framhaldinu að gefa ráðherra tækifæri til að móta einhvern ramma utan um hámarksfjárhæðir hjá þeim aðilum sem annast innheimtu á skuldum. Frumvarpið á að tryggja, eins og komið hefur fram í umræðunni, vernd fyrir þriðja aðila, þ.e. skuldara, þegar kemur að innheimtuaðgerðum og innheimtukostnaði.

Að sjálfsögðu þekkjum við það, mörg, að fólk hefur misjafna reynslu af slíkum aðgerðum og slíkum kostnaði og það er alþekkt þegar kemur að því að senda skuldir til innheimtuaðila að kostnaður rýkur upp úr öllu valdi. Það er nauðsynlegt fyrir löggjafann og framkvæmdarvaldið að setja almennar reglur utan um þetta regluverk allt, því að um gríðarlega fjármuni er að ræða þegar kemur að innheimtu skulda og þetta er gríðarlega stór atvinnuvegur hvað varðar innheimtuaðilana.

Eins og hæstv. ráðherra nefndi áðan er hér um að ræða mál sem byggir að nokkru leyti á frumvarpi sem lagt var fram undir lok síðustu aldar og ljóst er að margir stjórnmálamenn hafa haft mikinn áhuga á að ramma þessar reglur betur inn og ég fagna því. Í viðskiptanefnd bíður okkar mikið verk að fara yfir málið, því að eins komið hefur fram í umræðunni er hér um mjög mikilvægt mál að ræða og mikið hagsmunamál almennt fyrir almenning. Þess vegna kem ég upp og fagna því sérstaklega að málið skuli vera komið fyrir þingið og til þinglegrar meðhöndlunar, því að eins og ég sagði áðan er hér um mikið hagsmunamál að ræða fyrir almenning í landinu.

Ég lýsi yfir fullum vilja til að vinna hratt og vel að þessu máli innan viðskiptanefndar en legg áherslu á að trúlega eru einhver atriði í því sem við getum skoðað betur á vettvangi nefndarinnar og það verkefni bíður okkar. Ég lýsi enn og aftur yfir mikilli ánægju með að þetta frumvarp skuli vera komið fram, því að ég hef trú á að það verði, ef við vinnum málið vel, almenningi til hagsbóta. Það er í raun og veru öllum aðilum til góðs að reglurnar séu skýrar, hvort sem um er að ræða þá sem skulda eða þá sem innheimta skuldirnar og því er nauðsynlegt að við skýrum þetta regluverk allt saman.