135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

rannsóknir í þágu atvinnuveganna og stjórn fiskveiða.

55. mál
[12:33]
Hlusta

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (Fl):

Virðulegi forseti. Á þessari stundu hefur stjórn þingsins verið í þeirri erfiðu stöðu að þurfa að velta fyrir sér þingfundi í samkeppni við beina útsendingu frá myndun nýs meiri hluta í Reykjavíkurborg og hefur komist að þeirri niðurstöðu að það væri vænlegast til þess að halda hlut þingsins að tefla fram máli frá þingmönnum Frjálslynda flokksins. Ég vil, virðulegi forseti, leggja mitt af mörkum til þess að standa undir því trausti þingforseta að um áhugavert mál sé að ræða sem eigi brýnt erindi inn í þjóðmálaumræðuna til jafns á við það sem er að gerast þessa stundina.

Virðulegi forseti. Frumvarp það sem ég vil leyfa mér að mæla fyrir er að finna á þskj. 55 og er um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna og á lögum um stjórn fiskveiða. Ég flyt frumvarpið ásamt hv. þm. Grétari Mar Jónssyni. Efnisatriði frumvarpsins eru þau að færa verkefni frá sjávarútvegsráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins og að færa yfirstjórn Hafrannsóknastofnunar einnig frá sjávarútvegsráðuneyti til umhverfisráðuneytis.

Með frumvarpinu fylgir örstutt greinargerð sem ég ætla að leyfa mér að lesa, virðulegi forseti, til að kynna efni frumvarpsins í stuttu máli að öðru leyti.

„Með frumvarpi þessu er lögð til sú grundvallarbreyting að verkefni sem nú heyrir undir sjávarútvegsráðuneyti verði flutt til umhverfisráðuneytis. Er þar um að ræða hafrannsóknir, friðun og ákvörðun um heildaraflamark úr einstökum fiskstofnum. Samhliða er gert ráð fyrir því að yfirstjórn Hafrannsóknastofnunarinnar verði færð frá sjávarútvegsráðuneyti til umhverfisráðuneytis. Nái þessi breyting fram að ganga mun umhverfisráðuneyti ákvarða heildaraflamark ár hvert, hafa umsjón með rannsóknum og gera tillögur varðandi almennt skipulag veiða innan efnahagslögsögunnar, ekki síst þeirra sem tengjast hafsbotninum. Þá mun ráðuneytið veita ráðgjöf um friðunaraðgerðir og notkun veiðarfæra, jafnframt því að setja almennar reglur um notkun veiðarfæra. Sjávarútvegsráðuneyti mun eftir sem áður annast stjórn veiðanna innan framangreindra marka og hafa yfirumsjón með eftirliti með veiðum og mati á sjávarafurðum.

Nauðsynlegt þykir að gera umrædda breytingu og leggja þannig ríkari áherslu en verið hefur á umhverfisþátt rannsókna og stjórn á álagi við hagnýtingu auðlindanna. Þetta er ítrekað með því að færa mikilvægar ákvarðanir og tillögugerð úr höndum beinna hagsmunaaðila til umhverfisráðuneytis. Ekki er eðlilegt að hagsmunaaðilar geti ráðið miklu um ákvörðun sem þá varðar miklu fjárhagslega þegar í húfi eru náttúruauðlindir sem þjóðin byggir afkomu sína á í svo ríkum mæli sem raun ber vitni. Það skiptir miklu máli að við ákvarðanir um hagnýtingu auðlindar sé litið til langs tíma og þjóðarhags.“

Þannig er greinargerðin, virðulegi forseti, og eins og þar kemur fram er lögð áhersla á tvennt. Annars vegar að líta á auðlindir landsins sem viðfangsefni umhverfisráðuneytis, að það eigi að annast rannsóknir og leggja mat á nýtingarmöguleika auðlindanna, og í því tilviki sem frumvarpið nær til fiskstofnanna, fremur en að líta svo á, eins og gert er í dag, að það sé viðfangsefni atvinnugreinarinnar að taka ákvarðanir um þessa hluti. Hagsmunirnir eru nefnilega samtvinnaðir, annars vegar hagsmunir atvinnugreinarinnar og hins vegar hagsmunir auðlindarinnar eða umhverfisins og þeir hagsmunir þurfa ekki alltaf að fara saman. Því er nauðsynlegt að draga þar línu á milli og skilja verkefnin í sundur, sem áður þótti eðlilegt, á þeim tíma sem þetta var samþykkt á sjötta og sjöunda áratugnum, að hafa sameiginlega.

Ég vil nefna sem dæmi um skörun á hagsmunum sem er ekki eðlileg. Rannsóknastofnunin, Hafrannsóknastofnun, lýtur stjórn fimm manna sem sjávarútvegsráðherra skipar og í þeirri stjórn eru fulltrúar útgerðarmanna. Stjórnin ræður síðan mestu um efnistök og verkefni og annað slíkt í starfi stofnunarinnar. Þar er m.a. tekist á um að nýta einstaka fiskstofna, jafnvel í andstöðu við aðra hagsmuni.

Loðnuveiðar hafa verið mjög miklar á síðustu áratugum, þær hafa alla tíð verið mjög umdeildar. Margir vilja tengja saman þá slæmu stöðu sem þorskstofninn hefur verið í síðustu tvo til þrjá áratugi og loðnuveiðar sem hafa stórlega vaxið frá því sem áður var á þessum tíma, enda vitað að loðnan er mikil fæða fyrir þorskinn. Hagsmunirnir liggja þannig að þeir útvegsmenn sem gera út á þessar veiðar hafa mikil ítök og menn sjá það sem hafa fylgst með starfi Hafrannsóknastofnunar á undanförnum árum og áratugum að varla hefur mátt anda úr sér að ekki fyndist loðna þá er farið af stað skip og ef ekki var til peningur þá var hann bara fundinn eða tilkynnt að hann mundi verða sóttur seinna í fjáraukalögum. Þetta eru óeðlilegir hagsmunir og Hafrannsóknastofnun hefur ekki rannsakað áhrifin af þessum miklu veiðum sem skyldi og hefur farið undan í flæmingi í mörg ár í viðræðum við þá sem hafa haldið fram öðrum sjónarmiðum og viljað ræða við stofnunina um áhrifin af þessum veiðum.

Í öðru lagi eru um það mjög mörg dæmi, frá nánast öllum tímum á síðustu tveimur áratugum, síðast bara nú í sumar, að ákvörðun sem sjávarútvegsráðherra hefur tekið um heildarveiði úr einstökum fiskstofnum hefur ekki endurspeglað tillögur Hafrannsóknastofnunar. Síðast í sumar þegar ráðherrann ákveður að fara algerlega eftir tillögu Hafrannsóknastofnunar um veiðar á þorski heimilar hann auknar veiðar úr 12 stofnum af 17, sem eru kvótabundnar, fer fram úr ráðgjöf fiskifræðinganna í 12 fiskstofnum af 17. Hæstv. ráðherra er þá spurður: Hvernig stendur á því að ekki er óhætt og á ekki að vera stefnan að fara fram úr þeirri ráðgjöf í veiðum á fiskstofni eins og þorskinum en það er í lagi að gera það í öðrum stofnum? En það fást engin svör.

Á síðasta áratug þegar niðurskurður var í þorskveiðum, á árunum 1992, 1993, 1994 og 1995, var þeim niðurskurði mætt með því að fara fram úr í heimiluðum veiðum í ýsu og öðrum tegundum. Ráðuneytið gaf út fréttatilkynningar þegar aflamarkið var ákvarðað í þessum tegundum og sagði: Ja, það er svona mikið efnahagslegt tap vegna samdráttar í þorskveiðum, en við höfum ákveðið að leyfa veiðar úr öðrum stofnum svona mikið umfram ráðgjöf fiskifræðinga og þar koma tekjur á móti þannig að heildaráhrifin eru kannski mjög hverfandi. Þarna er ákvörðunin um veiðar úr fiskstofni ekki byggð á fiskifræðilegri ráðgjöf heldur efnahagslegum aðstæðum útgerðanna. Þess vegna er ekki við það búandi, virðulegur forseti, að láta sjávarútvegsráðherrann, sem á fyrst og fremst að fjalla um atvinnugreinina, taka slíkar ákvarðanir sem lúta að umhverfinu. Það má segja að fyrirkomulagið síðustu tvo til þrjá áratugina sé ein samfelld sönnun þess að taka á þá hluti sem frumvarpið gerir ráð fyrir úr höndunum á atvinnuvegaráðuneytinu.

Virðulegi forseti. Þróunin á undanförnum árum hefur kannski verið mjög í áttina til þess sem lagt er til í frumvarpinu. Ég flutti frumvarpið fyrst árið 1997 ásamt hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Þá vorum við reyndar með í því einn kafla enn sem fjallaði um að færa Rannsóknastofnun landbúnaðarins frá landbúnaðarráðuneytinu til umhverfisráðuneytisins. Þetta er í sjötta skipti sem ég flyt þetta frumvarp og meðan hv. þm. Guðni Ágústsson var landbúnaðarráðherra gerði ég það af tillitssemi við hann að vera ekki að hafa þann kafla í frumvarpinu, það stóð bara þannig á á þeim tíma. Nú eru málin komin í það horf sem frumvarpið lagði til, rannsóknastofnunin komin undir Landbúnaðarháskólann og þau málefni eru meira og minna komin yfir í umhverfisráðuneytið. Ég tel reyndar skynsamlega þá breytingu sem gerð var og menn áttu ekkert að hika við að flytja t.d. bæði landgræðslu og skógrækt undir umhverfisráðuneytið, það er fullkomlega eðlilegur hlutur og í samræmi við upphafleg markmið fyrsta frumvarpsins. Það má segja að það frumvarp hafi náð fram að ganga, hvort sem það er vegna flutningsins á þessu frumvarpi eða öðru. Sjónarmiðin sem liggja að baki hafa a.m.k. unnið sér þann sess að þetta er orðið að veruleika.

Í öðru lagi hefur komið fram í þessum frumvörpum að rétt væri að sameina atvinnuvegaráðuneytin í eitt og segja má að það hafi líka náð fram að ganga að verulegu leyti með sameiningu landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytisins. Því má segja að eftir standi eitt efnisatriði í upphaflega frumvarpinu og það er að flytja þessi málefni úr sjávarútvegsráðuneytinu yfir í umhverfisráðuneytið. Ég tel það tímaspursmál hvenær nægjanlegur stuðningur verður við það hér á þingi að gera þá breytingu. Ég vonast til þess að það verði á þessu kjörtímabili og hef því lagt áherslu á að þetta mál verði fært á málasvið umhverfisráðuneytisins og legg til að það fari til hv. umhverfisnefndar að lokinni þessari umræðu þegar því verður vísað til 2. umr.

Síðast í morgun sá ég kannski enn eina sönnun þess að það er ekki skynsamlegt fyrirkomulag að láta atvinnuvegaráðherrann hafa það verkefni að stjórna álaginu í umhverfinu og rannsóknum á því. Ég sá niðurstöður rannsókna frá tveimur bandarískum háskólum, Yale-háskóla og Jarðastofnun Kólombíu-háskóla í Bandaríkjunum, þar sem gerð var úttekt á stöðu þjóða í umhverfislegu tilliti. Íslendingar lentu þar í 11. sæti, sem er út af fyrir kannski ekki slæmt. Það sem gerði það að verkum að Íslendingar lentu ekki á topp tíu listanum, sem þeir hefðu átt að gera eins og önnur Norðurlönd flest hver, er skýrt á þann veg í fréttinni að fiskveiðistefna Íslendinga valdi því að landið lendir ekki ofar í árangri í umhverfismálum.

Hvað er það í fiskveiðistefnunni sem er svona slæmt? Jú, Íslendingar fá aðeins 4 stig af 100 í þeim þætti mælingarinnar vegna slæmrar verndar á fiskveiðisvæðum. Það er afleiðing þess að atvinnuvegaráðherra er undir stöðugum þrýstingi hagsmunaaðila að leyfa veiðar á þessum stað og hinum, friða ekki þarna og draga úr friðun hér. Við höfum séð það á þessum vetri að opnaðar hafa verið veiðislóðir sem áður voru lokaðar hér upp við harðaland sem hefur auðvitað sætt gagnrýni. Atvinnuvegaráðherrann, sjávarútvegsráðherrann, fær á baukinn frá þessum bandarísku háskólum. Það er að mínu mati enn ein sönnun þess að hann er í ómögulegri stöðu með hagsmunaaðilana yfir sér í þessu verkefni. Það á að færa það verkefni undir umhverfisráðherra, þangað nær ekki hinn langi armur LÍÚ. Það er kannski höfuðkosturinn við þessa breytingu að fá til yfirstjórnar í þessum málaflokki og þessum verkefnum fólk sem er algerlega óháð efnahagslegum hagsmunum sjávarútvegsins.

Til fróðleiks um það hve samtvinnað þetta er orðið hjá Hafrannsóknastofnun og í sjávarútvegsráðuneytinu má geta þess að þegar Hafrannsóknastofnun metur hvað skynsamlegt er að veiða í einstökum stofnum þá er umhverfismatið, hvað hægt er að veiða úr stofninum vegna stærðar hans og aldurs og annars slíks, ekki aðgreint heldur er því blandað saman við efnahagslega útreikninga hverju sinni. Þess vegna getur komið út tillaga um að leyfa svona mikið af veiði vegna þess að í heildina fæst meira verðmæti fyrir fiskinn þegar hann er veiddur en ef veitt er minna fyrr og meira seinna eða öfugt. Ráðgjöfin er því orðin efnahagsleg alveg jafnt og umhverfisleg og við þurfum að aðgreina þá ráðgjöf, hafa hana í tvennu lagi, þannig að þeir sem taka ákvörðun hafi nákvæmlega fyrir sér mat á fiskstofnunum út frá þeim sjálfum og umhverfinu og séu ekki með það inni í því, efnahagslegt mat eða mat á því hvenær skynsamlegt er að veiða fiskinn með tilliti til verðmætis hans. Það er bara annað mat sem er sjálfsagt að fari fram en það á ekki að renna því saman við hitt þannig að það veit eiginlega enginn hvað er hvað í þeim efnum.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir helstu atriðin í þessu máli. Ég vonast til þess að það fái góða meðferð og athugun í hv. umhverfisnefnd og að það muni að lokum klárast að vinna fullnaðarsigur í því. Tvö mál af þremur eru komin í höfn á þessum tíu árum sem liðin eru síðan málið var fyrst flutt. Ég vonast til að það klárist á þessu kjörtímabili að ná því þriðja fram.