135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

friðlýsing Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði.

59. mál
[13:31]
Hlusta

Flm. (Jón Bjarnason) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði. Flutningsmenn auk mín eru allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, hv. þingmenn Atli Gíslason, Álfheiður Ingadóttir, Árni Þór Sigurðsson, Katrín Jakobsdóttir, Kolbrún Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon, Þuríður Backman og Ögmundur Jónasson.

Tillögugreinin hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu vatnasvæðisins norðan Hofsjökuls, þ.e. Austari- og Vestari-Jökulsár í Skagafirði ásamt þverám þeirra.

Friðlýsingin taki til vatnasviðs ánna að meðtöldum þverám og skal hvers kyns röskun á náttúrulegum rennslisháttum ánna vera óheimil. Skal svæðið friðað og stjórnað til varðveislu landslags þess, náttúrufars og menningarminja ásamt því að það verði notað til útivistar, ferðaþjónustu og hefðbundins landbúnaðar. Sérstaklega skal hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing vatnasvæðanna norðan Hofsjökuls geti tengst framtíðaráformum um Hofsjökulsþjóðgarð og fallið að stækkuðu friðlandi Þjórsárvera sunnan jökulsins.“

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir svo:

Frá Hofsjökli renna árnar Austari- og Vestari-Jökulsár. Þegar þær koma saman kallast þær Héraðsvötn en þau eru meginvatnsfallið í Skagafirði. Koma jökulsárnar saman við bæinn Kelduland. Báðar árnar renna í gljúfrum og er gljúfur Austari-Jökulsár öllu hrikalegra en þeirrar vestari. Náttúrufegurð jökulsárgljúfranna er einstök, svo og gróður, landslag og náttúrufar á vatnasvæði ánna. Hér er gert að tillögu að ríkisstjórnin leggi fyrir Alþingi frumvarp til laga þess efnis að árnar og vatnasvið þeirra verði friðlýst með lögum.

Með hliðsjón af flokkunarkerfi hinna alþjóðlegu náttúruverndarsamtaka IUCN er lagt til að svæðið geti fallið að V. friðlýsingarflokki. Nánari skilgreining þessa verndarstigs er á þessa leið: „Landsvæði, ásamt strönd eða sjó eftir því sem við á, þar sem samskipti manns og náttúru í gegnum tíðina hafa gert svæðið sérstætt, fagurfræðilega, vistfræðilega og/eða menningarlega, og gjarnan með mjög fjölbreyttu lífríki. Varðveisla þessara hefðbundnu samskipta í heild sinni er nauðsynleg fyrir verndun, viðhald og þróun slíks svæðis.“

Segja má að viðhorf þeirra sem vilja vernda vatnasvæði ánna speglist vel í ljóðlínum Stefáns Vagnssonar frá Hjaltastöðum (1889–1963) úr kvæðinu Blönduhlíð:

Meðan „Vötnin“ ólgandi að ósum sínum renna,

iðgrænn breiðist gróður um sléttur, hæð og laut,

geislar árdagssólar á bröttum tindum brenna,

blessun Drottins ríkulega falli þér í skaut.

Eins og við öll vitum eru Héraðsvötnin einmitt kölluð Vötnin með stórum staf og setja mark sitt svo rækilega á héraðið Skagafjörð.

Í ályktun félagsfundar Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í Skagafirði frá 8. júní 2005 segir:

„Héraðsvötnin og jökulárnar móta ásýnd og ímynd Skagafjarðar og eru undirstaða hins síkvika lífkerfis héraðsins allt frá jöklum til hafs. Tækifæri framtíðarinnar felast í að vernda þau og nýta óspjölluð í tengslum við fjölþætta útivist, veiði, ferðaþjónustu, landbúnað og aðra umhverfisvæna atvinnustarfsemi. Þýðing Vatnanna fyrir uppeldi fiskseiða, bæði ferskvatnsfiska og sjávarfiska er einnig ómetanleg. Félagsfundur VG í Skagafirði leggst því alfarið gegn öllum hugmyndum um virkjanir í Jökulsánum í Skagafirði.“

Ferðaþjónusta í Skagafirði er í örum vexti og hafa fljótasiglingar skapað svæðinu mikla sérstöðu.

Með þingsályktunartillögu þessari eru í fylgiskjölum ályktanir og sýnishorn af greinaskrifum Skagfirðinga sem undirstrika hug þeirra til svæðisins. Augu æ fleiri eru að opnast fyrir verðmæti ósnortinnar náttúru og ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum. Náttúran á sinn eigin sjálfstæða rétt. Við höfum hana að láni frá komandi kynslóðum. Jökulsárnar í Skagafirði eru mikilvægar fyrir lífkerfi héraðsins frá jöklum til sjávar. Vötnin hafa ekki aðeins mótað skagfirska náttúru heldur einnig skagfirska menningu og daglegt líf. Þau eru lífæð Skagafjarðar.

Í ljósi þessa er þingsályktunartillagan um friðun Austari- og Vestari-Jökulsár flutt.

Þetta mál var flutt í byrjun 133. löggjafarþings af þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en komst ekki á dagskrá og er endurflutt, að mestu óbreytt.

Ekki þarf að minna hér á þær miklu deilur sem hafa staðið um virkjanaáform í Skagafirði, í jökulánum í Skagafirði þar sem hart hefur verið tekist á, annars vegar á milli sjónarmiða þeirra sem vilja leggja Vötnin, jökulárnar, undir virkjanir, stífla jökulárnar og gera þar stórvirkjanir og hins vegar þeirra sem vilja vernda jökulárnar ásamt lífríki þeirra bæði nútíð og framtíð til blessunar.

Í grein í Morgunblaðinu, 25. maí 2006, eftir Sigurlaugu Konráðsdóttur, kemur fram að Skagfirðingar vilji ekki fórna ánum og vatnasvæðum þeirra í þágu virkjana og háspennulagna. Í greininni nefnir hún árnar „dýrustu perlur Skagafjarðar“. Ólafur Þ. Hallgrímsson, sóknarprestur á Mælifelli, ritar grein um önnur virkjunaráform við Skatastaði í sama blaði, 20. maí 2006, og segir: „verði af virkjun við Skatastaði verður ásýnd dalsins stórlega spillt, m.a. nokkrar af fegurstu þverám hans eyðilagðar. Einnig munu siglingar á jökulánum leggjast af.“

Undir þessi orð taka flutningsmenn tillögu þessarar og leggja áherslu á að unnt er að samræma þetta tvennt, eflingu atvinnutækifæra og náttúru- og umhverfisvernd. Er þetta í samræmi við málefnaskrá Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs en þar segir: „Nýting orkulindanna er mikilvæg og nauðsynleg en stóriðja og stórvirkjanir í þágu mengandi iðnaðar sem ganga á náttúruna eru andstæð sjálfbærri þróun. Ríkulegt tillit þarf að taka til umhverfis við áætlanir og ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma.“

Herra forseti. Með þingsályktunartillögunni fylgja síðan allmörg fylgiskjöl þar sem greint er frá ályktunum og greinaskrifum þeirra sem leggjast á sveif með að jökulárnar verði friðlýstar gagnvart virkjunum og öðrum stórskemmdum á lífríkinu sem af því getur hlotist. 21. maí síðastliðinn ályktaði áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði, áhugahópur heimafólks sem á þverpólitískan hátt hefur tekið að sér að standa fyrir baráttu gegn áformunum um virkjanir og með Jökulsánum, á þessa leið:

„Áhugahópur um verndun Jökulsánna í Skagafirði hvetur verðandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar til að beita sér fyrir verndun ánna. Það er ljóst að þær hugmyndir sem uppi hafa verið um virkjun þeirra samræmast ekki yfirlýstri umhverfisstefnu annars stjórnarflokksins, sem m.a. hefur friðun skagfirsku jökulsánna á stefnuskrá sinni. Nú er lag að fylgja þeirri stefnu eftir.

Mikil andstaða er í Skagafirði við Skatastaða- og Villinganesvirkjanir. Uppbygging álvers á Bakka við Húsavík mun engu að síður krefjast þessara virkjana. Til að vernda Jökulsárnar í Skagafirði — og aðrar náttúruperlur — er því nauðsynlegt að fallið verði frá áætlunum um að reisa álver á Bakka, að öðrum kosti verða þær áfram í gíslingu stóriðjustefnunnar.“

Ég vil einnig geta þess, herra forseti, að fyrir liggur nú þegar fullkomin áætlun um virkjun við Villinganes, sem hefur farið í gegnum umhverfismat, og hefur aðeins staðið á framkvæmdaleyfi frá sveitarfélaginu Skagafirði sem hart hefur verið tekist á um í heimabyggð hvort skuli veitt. Þess vegna er svo brýnt að nú þegar verði tekin afstaða af hálfu ríkisstjórnar og Alþingis um friðun Austari- og Vestari-Jökulsár eins og hér er lagt til.

Ég vil einnig leyfa mér að vitna til stefnuskrár Samfylkingarinnar — og ég fagna því að hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir er viðstödd umræðuna — en í þeirri upptalningu segir í 5. lið kosningastefnuskrárinnar: „Tryggja friðun Skjálfandafljóts, Jökulánna í Skagafirði, Torfajökulssvæðisins, Kerlingarfjalla, Brennisteinsfjalla og Grændals.“

Ég minnist þess að í umræðum fyrir síðustu alþingiskosningar komu fulltrúar Samfylkingarinnar, frambjóðendur sem sumir eru nú orðnir ráðherrar, og töluðu tæpitungulaust hvað þetta varðaði um að Jökulsárnar í Skagafirði skyldu friðaðar og þeim skyldi ekki vera haldið í gíslingu þeirra sem vilja leggja þær undir stórvirkjanir og tortíma þeim á þann hátt.

Ég vil því í lok máls míns, herra forseti, inna hæstv. umhverfisráðherra eftir því hvort sú skoðun og það mat sé ekki óbreytt sem Samfylkingin lagði áherslu á. Ég veit að það var ágreiningur innan Samfylkingarinnar um þetta mál, ég þekki það, og margir af oddvitum Samfylkingarinnar bæði utan héraðs og innan höfðu aðra skoðun. Engu að síður var þetta sú stefna sem Samfylkingin lagði upp með og ég fagna því að þessar náttúruperlur skuli friðaðar. Ég vil inna hæstv. ráðherra eftir því hvort það sé ekki einlægur ásetningur hennar áfram og hún taki undir þá áskorun sem er í þessari þingsályktunartillögu, að Austari- og Vestari-Jökulsár verði friðlýstar og teknar úr gíslingu (Forseti hringir.) þeirra sem vilja leggja þær undir stórvirkjanir.