135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:21]
Hlusta

umhverfisráðherra (Þórunn Sveinbjarnardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og hv. þingmenn vita er mikið starf unnið um þessar mundir á vegum umhverfisráðuneytis og stofnana þess og einnig annarra ráðuneyta í stefnumótunarvinnu vegna loftslagsmála. Þar er fyrst til að taka samráðsnefnd átta ráðuneyta sem hefur starfað um hríð og tengir saman þær upplýsingar sem til eru í stjórnsýslunni um þessi mál og um það sem er að gerast. Eins og kunnugt er starfa síðan aðrar nefndir að tilteknum verkefnum og er væntanleg niðurstaða nefndar fjármálaráðuneytisins. Ég hygg að hún líti dagsins ljós í febrúar. Það er nefnd sem skilar tillögum um skattlagningu og gjöld á eldsneyti, sem er eitt af því sem að er unnið.

Að auki er unnið hörðum höndum í tveimur nefndum á vegum umhverfisráðuneytisins, í svokallaðri vísindanefnd sem lýtur forustu Halldórs Björnssonar veðurfræðings, sem leggur mat á hugsanlegar afleiðingar loftslagsbreytinga fyrir Ísland og nærumhverfi, svona nokkurs konar örútgáfa af stóru vísindanefnd Sameinuðu þjóðanna. Þá er að störfum svokölluð sérfræðinganefnd sem lýtur stjórn Brynhildar Davíðsdóttur, dósents við Háskóla Íslands, sem fer yfir allar hugsanlegar leiðir til að draga úr nettólosun hér á landi, hvað þær leiðir þýða, hvað þær kosta og hvaða efnahagslegar afleiðingar þær geta haft.

Eins og fram kom í máli hv. þm. Marðar Árnasonar skila þessar nefndir af sér í vor og þá tekur við næsti fasi í þessari vinnu, þ.e. að móta aðgerðaáætlunina sem mótast þarf í samræmi við stefnumörkun ríkisstjórnarinnar. Það er vissulega mikið verk og flókin stjórnsýsla að halda utan um þessi mikilvægu mál og ég vil eins og flokksbróðir minn, hv. varaþingmaður Mörður Árnason, segja að mér þykir tillaga þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs allrar athygli verð. Spurningin er hvort við eigum ekki að íhuga hvernig við tökum þessi mál áfram innan stjórnsýslunnar, ekki síst held ég á hinu háa Alþingi í framhaldinu. Það er alveg ljóst að um þessi mikilvægu mál þarf helst að vera þverpólitísk samstaða í landinu.

Þetta vildi ég segja af þessu tilefni, hæstv. forseti, og síðan leiðrétta þann misskilning að ráðherrahópurinn svokallaði hafi hætt störfum. Ráðherrahópurinn er til staðar og starfar á meðan á samningaviðræðum um næsta skuldbindingartímabil stendur. Þær hófust á Balí eins og menn vita og þeim lýkur vonandi í Kaupmannahöfn 2009. Á meðan eru það hæstv. iðnaðar-, heilbrigðis- og fjármálaráðherra sem starfa ásamt þeirri sem hér stendur í þeim hópi og fjalla sérstaklega um markmið Íslands í samningaviðræðunum, hvernig skuli vinna þar og bregðast við því sem þar kemur upp. Á Balí vorum við og erum í hópi með þeim löndum innan og utan Evrópusambandsins sem lengst vilja ganga á öðru skuldbindingartímabili loftslagssamningsins.

Það gekk erfiðlega en það tókst að ná sameiginlegri niðurstöðu á Balí um að öll ríki heims mundu taka þátt í þeirri vinnu. Það var vissulega mjög mikilvægt skref en fram undan eru flóknar og kannski erfiðar samningaviðræður. Það á eftir að koma í ljós. En veganesti íslenskra stjórnvalda til Balí var af besta tagi og úr því munum við vinna. Við munum að sjálfsögðu starfa ótrauð áfram að stefnumörkuninni um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda. Ég á von á að á næstu vikum og mánuðum dragi til verulegra tíðinda í þeim efnum.