135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:33]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu um Loftslagsráðið en um leið óska eftir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir geri grein fyrir því hér, eins og ég mátti skilja á henni, að hún og hennar flokkur tækju í raun og veru undir þær hugleiðingar sem hæstv. umhverfisráðherra lýsti yfir. Ég skildi það svo að það væri fullur stuðningur hv. þingmanns við það sem hæstv. ráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir lýsti yfir auk þeirra yfirlýsinga sem hæstv. ráðherra hefur verið með gagnvart því sem farið var fram með á Balí og það sem lagt er upp með á næstu dögum og vikum á komandi fundum og í vinnunni fram undan. Þar af leiðandi þykir mér mjög mikilvægt að það liggi ljóst fyrir af hálfu hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur, eins og ég mátti skilja á ræðu hennar, að hún styddi bæði það sem hæstv. ráðherra væri að fara fram með í hinu fyrra sem lýst var varðandi umræðu um loftslagsráðið og síðan hitt varðandi það sem hæstv. ráðherra hefur sagt frá um niðurstöðuna á Balí og það sem við Íslendingar fórum fram með þar.