135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:34]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Á umhverfisþingi sem haldið var í haust varð umræða um loftslagsbreytingar. Þar brýndi ég hæstv. umhverfisráðherra og hvatti hana til að vera andófsmaður í þeirri ríkisstjórn sem þá var nýtekin við. Hæstv. umhverfisráðherra þarf eðli máls samkvæmt að vera andófsmaður í ríkisstjórn sem er hlynnt því að halda áfram að byggja upp stóriðju á Íslandi. Hæstv. umhverfisráðherra lýsti því yfir í lok þingsins að hún ætlaði sér að verða andófsmaður í þessari ríkisstjórn þannig að ég lít svo á að við hæstv. umhverfisráðherra séum bandamenn í þessum efnum.

Ég þekki sjónarmið hæstv. umhverfisráðherra í þessum efnum. Ég veit að hún vill ganga lengra en margir aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni og ég er hér að hluta til að brýna hana til að hún standi upp í hárinu á þeim ráðherrum ríkisstjórnarinnar sem eru ekki sama sinnis. Þeir hafa talað hér fyrir öðrum sjónarmiðum en hæstv. umhverfisráðherra hefur gert þannig að ég lít svo á að hæstv. umhverfisráðherra sé í þröngri og klemmdri stöðu í ríkisstjórninni og þurfi á stuðningi að halda frá þeim sem eru sama sinnis og hún. Ég hef lýst yfir stuðningi við þær hugmyndir sem hún leggur fram í riti sínu, Áherslur umhverfisráðherra. Eina orðið sem ég hef gert athugasemd við þar, og það er reyndar í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, og tel að það sé ekki komið frá hæstv. umhverfisráðherra, er þetta að það þurfi að líta eitthvað sérstaklega til „hagkvæmni“ þegar stórefld (Forseti hringir.) verður vinnan við að draga úr loftslagsbreytingum.