135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Svavarssyni, flokksbróður mínum og frænda, í ánægju hans yfir því að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir skuli hiklaust lýsa yfir stuðningi við hæstv. umhverfisráðherra og stefnu ráðherrans sem er sú sama og stefna ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum.

Það er misskilningur, þótt menn hafi verið að leika sér að orðum að það að vera baráttumaður umhverfismála á þingi, í samfélaginu og í ríkisstjórninni sé sjálfkrafa það að vera í einhvers konar andófi. Það held ég að sé misskilningur sem við umhverfissinnar þurfum að láta af því að það er ekki hollt að líta alltaf svo á að maður sé sjálfkrafa í minni hluta við að berjast fyrir réttlátum og góðum málstað. Þó verður að virða þeim til vorkunnar sem hafa lent í því of lengi að vera í stöðugri stjórnarandstöðu. Slík stjórnarandstaða getur mótað hugarfar manna eins og við könnumst við sem höfum verið í slíkri aðstöðu. Það er hollt, þarft og lýðræðislegt að menn komist, a.m.k. öðru hverju, í þá stöðu að bera ábyrgð og fara með vald. Ég held að hvað þetta mál varðar og umhverfissinna sé þeim hollast að líta svo á, og best og réttast, að þeir séu fulltrúar meiri hluta hér á landi og má ég vera hátíðlegur og segja meðal mannkynsins. Undanfarið hefur orðið feikileg hugarfarsbreyting í þessum efnum. Ég minntist á Ósló og Balí í alþjóðlegum fréttum og sú hugarfarsbreyting hefur líka náð til Íslendinga.

Ég verð að segja um afstöðu ráðherra og ríkisstjórnar sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur minnst á að ég tek mark á því að ríkisstjórnin sé sammála um þá stefnu sem sett var fram. Það er hins vegar einungis fyrsta skrefið að setja fram samningsmarkmiðin. Síðan kemur að því að samningar nást og Íslendingar þurfa að koma að þeim samningum með tilteknum hætti. Næsta skref þar á eftir er þá að vinna úr því sem náðst hefur og ákveða framtíðina innan lands með aðgerðaáætluninni sem við tölum um og Kaupmannahafnarsamþykktinni sem ég vona, eins og allir aðrir, að verði. Hvað gera menn þá og hversu samtaka verða þeir? Við verðum bara að sjá til með það. Ég tel að það sé gæfuleg byrjun að menn hafi verið sammála um að stíga þetta skref, bæði stjórnarflokkarnir og ráðherrar þeirra og stjórnarandstaðan eftir því sem mér heyrist núna, ásamt hv. þm. Gunnari Svavarssyni, en það var miður á sínum tíma að um það mátti efast í þeim garganda sem stundum verður í þessum sal við mikil tíðindi.

Ég held, forseti, að þetta sé allt nokkuð gott hjá mér og hæstv. umhverfisráðherra og hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og hinum ágæta hv. þm. Gunnari Svavarssyni og núna skulum við bara faðmast aðeins lengur og treysta á að það faðmlag haldi þegar til stykkisins kemur. Það verður í fyrsta lagi í vor og í öðru lagi þegar samningar takast í yfirstandandi samningaferli og í þriðja lagi þegar við förum að vinna úr þeim samningum eftir Kaupmannahafnarráðstefnuna 2009.