135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:49]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Það sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir taldi upp er alls ekki fortakslaust á annan hvorn veginn. Það er ekki búið að ákveða hvernig þessu verður háttað og þessi geiranálgun eru hlutir sem við skulum skoða í rólegheitum hvernig koma út.

Það sem ég legg áherslu á ásamt hæstv. umhverfisráðherra er að menn taki ekki neinn af þessum kostum og geri að einhvers konar fjarvistarsönnun Íslendinga á þessum vettvangi. Ég held að við getum öll verið sammála um að engin tæknileg leið eða sérstaða geti frelsað okkur undan því að taka þátt í þeim samdrætti sem er eina svarið, auk aðlögunar, við þeim válegu tíðindum sem okkur berast núna.

Um ráðherra í ríkisstjórninni og flokka á Íslandi er ósköp einfaldlega það að segja að það er öðruvísi ástand og útlit núna, í janúar 2008, en var fyrir einu ári, tveimur eða þremur árum þegar áhrifamenn í samfélaginu gengu um og trúðu því að þetta væri meira og minna lygimál, blekking og vitleysa og að því leyti sem eitthvað hefði gerst væri það sólblettum að kenna eða einhverjum atburðum í heiminum sem mannkynið gæti ekkert gert við. Ég tel að menn hafi þroskast mikið í þessum málum, líka í pólitíkinni á Íslandi, og við skulum vona að menn fari batnandi og það verði betra að lifa.