135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:51]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég get ekki unnt hv. þm. Merði Árnasyni að eiga síðustu orðin í þessari umræðu þannig að nú er um að gera að maður nýti sér nýju þingsköpin og fari í eitt stykki 5 mínútna ræðu. Þær mega víst vera eins margar og mig lystir svo lengi sem aðrir koma upp í sínar 5 mínútna ræður. Nei, nei, ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, ég vil bara þakka fyrir hana.

Ég tek sérstaklega undir orð hv. þm. Marðar Árnasonar um hversu hratt sjónarmiðin hafa breyst. Það er ekki langt síðan við heyrðum úr þessum sal úr munni hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíðs Oddssonar, að menn ættu ekki að dunda sér við að mála skrattann á vegginn í þessum málum. Skrattinn væri ansi leiðigjarnt veggskraut, sagði hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra, Davíð Oddsson, eitthvað á þá leið.

Nú segja menn ekkert slíkt lengur. Þeir eru búnir að átta sig á því, og núverandi hæstv. forsætisráðherra, Geir Haarde, líka. Eins og hefur komið fram í ræðum hans og áramótaávarpi veit hann að hann þarf líka að fara að tala öðrum rómi en hann og Sjálfstæðisflokkurinn hafa gert hingað til. Ég tel að Sjálfstæðisflokkurinn þurfi að fara í verulega naflaskoðun í þessum efnum. Samfylkingin fór í þá naflaskoðun fyrir síðustu kosningar. Þar voru sterkir umhverfisverndarsinnar, eins og hv. þm. Mörður Árnason og hæstv. umhverfisráðherra Þórunn Sveinbjarnardóttir sem leiddu vinnuna og þau náðu verulegum árangri með stóran hluta af flokkssystkinum sínum. En ég er ekki viss um að þau hafi náð alla leið. Ég tel að sú vinna sem þau hófu þá sé enn í gangi og ég tel að enn sé talsvert í land með að Samfylkingin sé orðin gegnheill umhverfisverndarsinnaflokkur. Ég tel hins vegar að það starf sem þar er unnið sé allt í rétta átt og ég fagna því. Þess vegna hlakka ég til þegar við, Vinstri hreyfingin – grænt framboð, getum tekið höndum saman við Samfylkinguna, við sterka umhverfisverndarsinna í Samfylkingunni um að við náum alla leið. Og þá er ég ansi hrædd um að við þurfum að skilja Sjálfstæðisflokkinn eftir. Ég er hrædd um að það endi með því — ég er ekkert hrædd um það, ég vona að það endi með því, það er vilji minn og hefur verið lengi vegna þess að Sjálfstæðisflokkurinn á miklu lengra í land en góðu hófi gegnir í þessum efnum. Það er auðvitað Sjálfstæðisflokkurinn og kannski einhverjir ráðherrar innan Samfylkingarinnar sem eru bremsa í þessum málum í dag. Mér þykir leitt að vita að það skuli vera bremsa en ég er tilbúin til að segja: Ég finn vilja hæstv. umhverfisráðherra og ég styð hana í því sem mér sýnist hún vera að reyna að gera innan ríkisstjórnarinnar.

Ég fagna því síðan enn og aftur að þessir hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar sem hér hafa talað skuli lýsa stuðningi við hugmyndina um loftslagsráð og treysti því að ég finni fyrir þeim stuðningi í umhverfisnefnd og við náum að afgreiða þetta mál aftur til þingsins og greiða um það atkvæði fyrir vorið.