135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:54]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætlaði bara að ítreka það sem ég sagði í fyrra andsvari mínu og hleypti þessum þingfundi kannski örlítið af stað aftur, virðulegi forseti, en ætla ekki að tefja þetta. Ég hef skilið það svo að hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir lýsi yfir stuðningi við það sem hæstv. umhverfisráðherra fer fram með innan ríkisstjórnarinnar og þá um leið ítreka ég að hæstv. umhverfisráðherra hefur stuðning alls stjórnarmeirihlutans í því sem hún leggur upp með. Þar af leiðandi verð ég að segja, virðulegi forseti, að það er gott til þess að vita að það sé hljómgrunnur hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur og vinstri grænum við það. Líkt og komið hefur fram í umræðunni um umrædda þingsályktunartillögu hafa hv. þingmenn lýst yfir jákvæðum vilja og um leið tekið undir það sem hæstv. umhverfisráðherra hefur sagt í ræðu um þau mál.

Að öðru leyti ítreka ég þennan skilning minn á ræðu hv. þingmanns og andsvörum sem hún hefur farið í og mun í raun og veru ekkert víkja frá þeim skilningi mínum miðað það sem hér hefur verið sagt, virðulegi forseti.