135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:56]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég nenni svo sem ekkert að berja höfðinu við steininn í þessum efnum en hv. þm. Gunnari Svavarssyni er greinilega mikið í mun að skilningur hans á því sem ég hef sagt sé með einhverjum ákveðnum hætti. Ég hef reynt að segja að ég er ekki sátt við það sem kom frá ríkisstjórninni fyrir Balí-fundinn. Ég tel það hafa farið í aðra átt en yfirlýst stefna umhverfisráðherra, og þegar hv. þm. Gunnar Svavarsson segir að umhverfisráðherra hafi stuðning fyrir því sem hún leggur fram í ríkisstjórn held ég að það sé rangt.

Ég held að sjónarmið umhverfisráðherra sem hún lýsti á umhverfisþingi og í þeim bæklingi sem hún gaf út og dreifði á umhverfisþinginu séu minnihlutasjónarmið í ríkisstjórninni. Ég hef ekki lýst yfir stuðningi við það sem ríkisstjórnin hefur látið frá sér fara í þessum efnum. Og ég þykist hafa vissu um það í pappírum frá hæstv. umhverfisráðherra að hún hefði viljað sjá þá stefnu öðruvísi en hún varð á endanum þannig að hversu mjög sem menn vilja láta líta út fyrir það að ríkisstjórnarheimilið tali einum rómi í loftslagsmálum verð ég að segja að svo er ekki. Og það er augljóst.