135. löggjafarþing — 53. fundur,  24. jan. 2008.

Loftslagsráð.

62. mál
[14:57]
Hlusta

Gunnar Svavarsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þá skarast þar á milli mín og hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur. Ég tel hæstv. umhverfisráðherra hafa fullan stuðning og að umræðan sé þannig innan þingflokka. Þar af leiðandi vildi ég fanga hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur með okkur í þann hóp og þá vegferð sem hæstv. ráðherra vinnur að. Ég hef ekki fundið í mínum þingflokki fyrir öðru en að þau mál sem hæstv. ráðherra leggur upp með, líkt og margir aðrir hæstv. ráðherrar með önnur mál, hljóti víða hljómgrunn. Þar af leiðandi er skilningur minn á orðum hv. þm. Kolbrúnar Halldórsdóttur enn sá sami, en í sjálfu sér getum við látið deilur niður falla með það hvort ég sé að særa fram einhvern stuðning við ríkisstjórnina eða slíkt. Það er alls ekki svo. Ég fann bara í ræðunni fyrir samhljómi þarna á milli og vildi ítreka þennan skilning minn, enda fannst mér það skipta hæstv. umhverfisráðherra miklu máli og um leið hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur.