135. löggjafarþing — 54. fundur,  29. jan. 2008.

lánshæfiseinkunn Moody's.

[13:39]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Álit Moody's, sem birt var í gærmorgun, er mjög jákvætt hvað varðar efnahagsstöðuna á Íslandi og sérstaklega fjárhagsstöðu ríkissjóðs. Hvers vegna birtir Moody's þessa skýrslu einmitt núna? Ég hygg að það sé vegna þess að þeir telja að þeir þurfi sérstaklega að rökstyðja að þeir hafi gefið ríkissjóði Íslands hæstu lánshæfiseinkunn, eða triple A, AAA, eins og það heitir í þessum bransa. Sú einkunn stendur óhögguð eftir þetta nýja mat og það er gríðarlega mikilvægt.

Það er líka rétt að leiðrétta það strax, sem fram hefur komið í fréttum, að það sé niðurstaða fyrirtækisins að best væri að íslensku bankarnir flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi. Það stendur ekki í þessu áliti, hvorki er mælt með því né hvatt til þess. Þar stendur hins vegar að ef bankarnir færu úr landi mundi sú óbeina ábyrgð sem talin er hvíla á ríkissjóði vegna starfsemi þeirra minnka, og það er vissulega rétt. Með sama hætti mætti segja að sú ábyrgð mundi minnka verulega ef bankarnir hættu starfsemi sinni. Það er ekki aðalatriðið í skýrslunni.

Það sem hv. þingmaður dró fram úr skýrslunni skiptir verulegu máli. Efnahagsaðstæður eru þannig, og er það dregið mjög skýrt fram, að ekki er nein sérstök hætta á ferðum hérlendis jafnvel þótt kæmi til alvarlegrar fjármálakreppu sem þó er talið ólíklegt. Einnig er bent á að fjárhagsstaða bankanna sé traust þrátt fyrir þá erfiðleika sem nú eru á fjármagnsmörkuðunum og það sjáum við líka í þeim uppgjörum sem birt hafa verið á síðasta sólarhring. Ég tel mjög mikilvægt að þetta komi fram, virðulegi forseti.